Innlent

Írarnir hafa ekki sótt um leyfi

Lögreglan hefur haft afskipti af á annan tug Íra sem farið hafa um landið og selt hina ýmsu hluti að undanförnu. Á meðal þess sem mennirnir hafa boðið til sölu eru rafstöðvar, borvélar og háþrýstidælur. Sex Írar voru til að mynda stöðvaðir í Sundahöfn í gær þar sem þeir seldu varninginn úr sendiferðabíl sínum. Þá hefur lögreglan í Hafnarfirði einnig haft afskipti af mönnunum og lögreglan á Ísafirði hefur stöðvað tvo Íra. Kaupendur sem verslað hafa mennina segja að um svikna vöru sé að ræða; þeir hafi talið sig vera að kaupa díselrafstöðvar en síðar hafi komið í ljós að svo sé ekki, heldur sé um að ræða bensínsrafstöðvar. Þar að auki hafi þær ekki verið nærri eins öflugar og komi fram á umbúðunum. Að sögn Harðar Jóhannessonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Reykjavík, hafa mennirnir ekki söluleyfi. Verkfærin voru þó flutt inn með löglegum hætti og hafa verið greiddir af þeim tollar og gjöld. Þeir sem hyggja á hvers konar verslunarrekstur hér á landi þurfa að fá leyfi og "vask"-númer hjá Ríkisskattstjóra. Sá sem varð þar fyrir svörum nú fyrir hádegisfréttir kvaðst ekki vita til þess að mennirnir hafi sóst eftir slíku í morgun. Að sögn lögreglunnar eru Írarnir ekki búsettir hér á landi heldur komu þeir hingað til lands um síðustu helgi, að því er virðist gagngert til að selja landsmönnum umrædd tæki og tól með ólöglegum hætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×