Innlent

Athyglisvert val RÚV á viðmælendum

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík segir val stjórnenda Kastljóss á fulltrúa minnihluta gegn borgarstjóra, athyglisvert. Flugvallarmálið hafi verið til umræðu og stjórnendur Kastljóss hafi ákveðið að kalla til leiks varaborgarfulltrúa og prófkjörskandidat til að skiptast á skoðunum við borgarstjóra um málið í stað þess að kalla til oddvita minnihlutans til að skýra stefnu Sjálfstæðisflokks. Vilhjálmur var gestur Íslands í bítið í morgun og ræddi m.a. baráttuna við Gísla Martein Baldursson um sætaskipan á lista Sjálfstæðisflokks fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Gísli Marteinn hefur verið mjög áberandi í fjölmiðlum á sama tíma og minna hefur borið á Vilhjálmi. "Það virðist vera þannig að sumir hafi meiri aðgang að fjölmiðlum en aðrir," sagði Vilhjálmur í viðtali við Ingu Lind Karlsdóttur og Heimi Karlsson  í Íslandi í bítið í morgun. Vilhjálmur sagði að sér hefði fundist það sérkennilegt að sjá Gísla Martein skiptast á skoðunum við borgarstjóra um flugvallarmálið í Kastljósi og hann væri ekki einn um þá skoðun. Vilhjálmur sagði jafnframt að væntanlega gætu stjórnendur Kastljóss fært rök fyrir þeirri ákvörðun að kalla frekar Gísla Martein í þáttinn en oddvita Sjálfstæðisflokks, sem þó hefði kynnt og talað fyrir stefnu flokksins í flugvallarmálinu. Viðtal þeirra Ingu Lindar og Heimis við Vilhjálm má sjá hér í VefTV.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×