Innlent

Hálfunnið amfetamín frá Póllandi

Hálfunnið amfetamín frá Póllandi er sent til landa víða um heim og fullunnið þar. Til þess þarf brennisteinssýru eins og fannst í farangri Litháa á mánudaginn. Lögreglan telur að fíkniefnahundar myndu finna slíkt efni og segja að hægt sé að þjálfa þá til að finna brennisteinssýru. Brennisteinssýran sem fannst í farangri Litháans nægir til að fullvinna um fjögur kíló af amfetamíni. Lögreglumenn og tollverðir á Keflavíkurflugvelli sem fréttastofa Stöðvar 2 hefur rætt við í dag segja það færast í aukana að hálfunnið amfetamín sem framleitt sé í Póllandi sé sent víða og fullunnið í þeim löndum þar sem selja eigi efnið. Til þess að fullvinna efnið þarf brennisteinssýru sem er notuð töluvert á rannsóknarstofum og í kennslustofum grunn- og framhaldsskóla. Í skólavörubúðinni fæst 98 prósenta brennisteinssýra. Rafn B. Rafnsson, framkvæmdstjóri Skólavörubúðarinnar, segir búðina hafa þjónustað skólana í áratugi og þá eingöngu. Sýran sé geymd í traustum hirslum og hún sé afgreidd til efnafræðikennslu í skólum. Guðmundur Baldursson rannsóknarlögreglumaður bar fyrir dómi í dag í máli Litháans, sem tekinn var með tvær flöskur af brennisteinssýru, að hálfunnu amfetamíni frá Póllandi væri dreift víða um Evrópu. Aðspurður hvort fíkniefnaleitarhundar hér á landi finni slíkt efni í farangri fólks segist Þorsteinn Hraundal lögreglumaður frekar eiga von á því að hundarnir finni öll þau efni sem notuð séu til framleiðslu á fíkniefnum. Aðspurður hvort reynt hafi á það hér á landi neitar Þorsteinn því og segir að ef hundar finni t.d. ekki brennisteinssýru sé mjög auðvelt að kenna þeim það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×