Innlent

Varnarliðsmenn ganga berserksgang

"Það fer ekkert á milli mála að framkoma þessara manna hefur versnað til muna síðustu misserin," segir Magnús Jóhannsson, framkvæmdastjóri leigubílafyrirtækisins Ökuleiða í Keflavík. Tvívegis nú á stuttum tíma hafa bandarískir hermenn gengið berserksgang í bílum fyrirtækisins með þeim afleiðingum að eigendur þeirra urðu fyrir allmiklu tjóni. Varnarliðsmenn hafa þannig oftar en einu sinni skorið með hníf í sæti bílanna í vetur og einn leigubílstjóri lenti í því að þurfa að greiða 200 þúsund krónur fyrir hreinsun á bíl sínum eftir að einum hermanni blæddi heiftarlega í aftursætinu án þess að láta vita af því. Magnús telur að Utanríkisráðuneytið beri ábyrgð á gerðum varnarliðsmanna utan vallarmarka en þar er vísað á bug öllum tilraunum til að fá tjón bætt. Hann kann enga skýringu á þessu háttarlagi varnarliðsmannanna en segir athugavert að svo virðist sem flestir þeirra gangi um með stóra hnífa. "Þetta var ekki vandamál hér áður en það er til staðar nú og á því verður að taka. Hin stöðin hér í Keflavík þjónustar ekki lengur Varnarliðið og við viljum ekki loka á þá því aðeins er um lítinn fjölda þeirra að ræða en stjórnvöld þurfa að axla sína ábyrgð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×