Innlent

Lá við stórslysi í eldsvoða

Það var á sjötta tímanum sem tilkynnt var til lögreglunnar á Ísafirði að eldur væri laus í dráttarvél sem væri inni í vélageymslu við Hóla. Þegar slökkvilið Þingeyrar kom á vettvang logaði út um dyrnar á geymslunni og talsvert mikill eldur var inni í henni, að sögn lögreglu.  Slökkvistarf gekk vel. Meðal annars tókst að koma í veg fyrir að tveir 20 kílóa gaskútar spryngju og að verja stóran olíutank sem var rétt innan við dyrnar.  Rennihurð sem annars lokar dyraopi geymslunnar var opin og hurðin var uppi. Við hitann rann hún niður, rétt í þann mund sem slökkvilið kom á staðinn. Mildi var að enginn var þar undir. Rétt áður höfðu tveir menn verið þar við að reyna að draga brennandi dráttarvélina út, en urðu frá að hverfa þar sem eldurinn magnaðist svo fljótt. Öruggt er talið að eldurinn hafi komið upp í einni af dráttarvélunum sem í geymslunni voru. Miklar skemmdir urðu á þrem dráttarvélum, tveim heyvinnuvélum, miklu af verkfærum og geymslunni sjálfri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×