Innlent

Býst við auknum hrossaútflutningi

Landbúnaðarráðherra telur að hrossaútflutningur til Þýskalands muni aukast í kjölfar úrskurðar þýskra yfirvalda um að engin hrossamafía starfi hér á landi eins og haldið var fram fyrir nokkrum árum. Íslenskir hrossaútflytjendur segja úrskurðinn mikinn sigur.  Rannsókn á málinu hefur staðið yfir í mörg ár og skaðaði hrossaútflutning mikið. Íslendingarnir voru sakaðir um að hafa falsað tollaskýrslur en síðar kom í ljós að um misskilning við útfyllingu skýrslnanna var að ræða. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra er staddur á heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Svíþjóð og hann telur úrskurðinn mikilvægan fyrir íslenska hrossaútflytjendur. Það hafi hvílt skuggi yfir íslenskum hrossaútflytjendum í Þýskalandi og þeir sætt miklum ásökunum. Það hafi horft illa á tímabili en nú hafi Þjóðverjar fellt þann úrskurð að Íslendingar séu sýknir saka. Hann telji að Íslendingar séu nú á öðru og betra stigi í þessum viðskiptum en áður þannig að úrskurðurinn hafi mikla þýðingu. Hinrik Bragason hrossaútflytjandi segir að sala á íslenska hestinum muni örugglega taka kipp í kjölfar úrskurðarins. Búið sé að eyða óvissu en menn hafi verið aðeins inn í sig á meðan enginn vissi hvaða stefnu málið tæki. Aðspurður hvort niðurstaðan verði kynnt sagði Hinrik að það verði eflaust gert þegar fram í sæki. Spurður hvort hann telji að salan muni aukast segir Hinrik að salan hafi verið góð undanfarin misseri og hann eigi ekki von á öðru en því að þegar menn heyri af niðurstöðu málsins haldi þeir áfram að kaupa hross frá Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×