Innlent

Dæmdur í níu ára fangelsi

Magnús Einarsson var dæmdur í níu ára fangelsi fyrir að kyrkja Sæunni Pálsdóttur, eiginkonu sína, með þvottasnúru í íbúð þeirra í Kópavogi í byrjun nóvember í fyrra. Gæsluvarðhald frá 1. nóvember kemur til frádráttar refsingunni. Dómur var upp kveðinn í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Magnús játaði að hafa orðið konu sinni að bana en sagði það ekki hafa verið ásetning sinn. Dómurinn gerði Magnúsi einnig að greiða börnum sínum tveimur skaðabætur, dóttur sinni tæpar 5,3 milljónir króna og syni sínum tæpar 6 milljónir króna. Er þar bæði horft til missis framfærenda, auk miskabóta. Þá var honum gert að greiða foreldrum eiginkonu sinnar skaðabætur, eina milljón króna hvoru, auk málskostnaðar, rúmar 2,3 milljónir króna. Dómurinn segir ákomur á líki Sæunnar, ummerki í íbúð og framburð nágrannakonu benda til að átök hafi átt sér stað skömmu fyrir dauða hennar. Tekið er fram að Magnús hafi verið reiður, afbrýðisamur og niðurlægður og "ekki fari á milli mála að hann hafi verið í andlegu ójafnvægi og ráðvilltur umrædda nótt". Er það virt honum til refsilækkunar en til refsihækkunar að hann brást ekki strax við er honum rann reiðin og hringdi á neyðaraðstoð þegar hann fann þá lífsmark með Sæunni. Þá afmáði hann verksummerki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×