Sport

Vieira á leiðinni til Torínó

Ítalska stórliðið Juventus er ákveðið í því að klófesta miðjumanninn Patrick Vieira frá Arsenal. Viðræður milli félaganna tveggja hafa staðið yfir undanfarna daga og talað er um að þær þokist í rétta átt fyrir Juventus. Samkvæmt fréttum er Juventus búið að bjóða átta milljónir punda í leikmanninn og Stephen Appiah sem hluta af samningnum en Arsenal vilji fá meiri pening en það. Talið er að félagið sætti sig við um fimmtán milljónir. "Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að fá leikmanninn, ekkert launungarmál að hann er efstur í forgangsröðinni hjá okkur sem stendur. Það er alveg skiljanlegt að stjórnarmenn Arsenal vilji ekki selja hann nema fyrir háa upphæð því hann er frábær knattspyrnumaður. Um leið og við fáum tækifæri til að kaupa hann þá gerum við það, svo einfalt er það." sagði Luciano Moggi, sérlegur sérfræðingur Juventus í leikmannakaupum. Vieira er 29 ára franskur landsliðsmaður og er fyrirliði Arsenals. Sáralitlu munaði að hann færi í raðir spænska liðsins Real Madrid síðasta sumar en Arsenal tókst með naumindum að halda honum hjá sér. Félagið er þó tilbúið að hlusta á öll tilboð í leikmanninn í dag og ljóst að Vieira er til sölu fyrir rétta upphæð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×