Erlent

Lýðræði og frelsi bannorð í Kína

Kínversk stjórnvöld gera sér ljóst mikilvægi Netsins í viðskiptum og hvetja til þess að það sé notað í þeim tilgangi. Þeim er hins vegar meinilla við að almenningur sé að vafra á Netinu og fylgjast vandlega með slíkum samskiptum. Ef menn skrifa orð eins og „lýðræði“, „frelsi“ eða „mannréttindi“ fá þeir samstundis skömm í hattinn: „Svona orðbragð er bannað, vinsamlegast eyðið.“ Vefsíður eiga það líka til að hverfa. Reynt var að fara inn á Google og skrifa þar leitarorð eins og „Taívan“, „Tíbet“ og „Falun Gong“. Og svarið var alltaf það sama: „Þessi síða finnst ekki.“ Kínverskir bloggarar eru lítt hrifnir af þessu framtaki en geta lítið að gert. Microsoft-fyrirtækið er í samvinnu við kínverskt fyrirtæki sem er ríkisrekið og á samvinnu við stjórnvöld um að útiloka bönnuð orð. Talsmaður Microsoft segir að ella fengi fyrirtækið ekki að starfa í Kína. Og það er eins gott að fara varlega á Netinu í Kína. Að minnsta kosti fimmtíu og fjórir hafa verið sendir í fangelsi fyrir að skrifa greinar eða hugleiðingar sem ekki féllu í kramið hjá stjórnvöldum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×