Innlent

Lögreglumaður sýknaður

Lögreglumaður var sýknaður í Hæstarétti í dag af ákæru um fjárdrátt og brot í opinberu starfi. Héraðsdómur hafði áður dæmt manninn í níu mánaða fangelsi, þar af voru sex skilorðsbundir.  Maðurinn starfaði sem fíkniefnalögreglumaður og var ákærður fyrir að hafa dregið sér fé, tæpar 900 þúsund krónur, sem hafði verið lagt hald á hjá sakborningi. Hann neitaði staðfastlega sekt frá því að rannsókn hófst. Hann bar því við að einhver þeirra lögreglumanna sem fór með rannsókn málsins hefði tekið féð og látið það í pappaöskju og upp á hillu í sameiginlegu rými. Einhver lögreglumaður annar hefði tekið féð og komið því til gjaldkera. Engar reglur giltu um meðferð fjármuna sem þessara en skrifstofustjóri tók að jafnaði við slíku fé og lagði inn á bankareikning sem hafði verið stofnað til í þessu skyni. Hæstiréttur taldi ósannað að manninum hefði verið kunnugt um að féð hefði ekki skilað sér til skrifstofustjórans. Hann var yfirmaður lögreglumannanna sem stóðu að umræddri aðgerð og þrátt fyrir að hann hefði vanrækt að ganga úr skugga um að frá málinu hefði verið gengið, taldi rétturinn það eitt og sér ekki leiða til refsiábyrgðar. Þá taldi rétturinn að skýringar mannsins á því hvers vegna dróst að afhenda féð hefðu ekki verið óeðlilegar, þótt hann hefði sýnt af sér ákveðið tómlæti. Yfirlögregluþjónn hafði áður borið að maðurinn hefði játað að hafa dregið sér fé en þar sem lögreglumaðurinn neitaði því staðfastlega var það ekki talið hafa sönnunargildi. Hann var því sýknaður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×