Saknaði Fúsa sárt úr vörninni

Línutröllið Sigfús Sigurðsson, oft uppnefndur Rússajeppinn, er byrjaður að leika með Magdeburg á nýjan leik eftir þrálát bakmeiðsli. Alfreð Gíslason, þjálfari Magdeburg, talaði um það fyrr í vetur að hann saknaði Sigfúsar sárt úr vörninni og hann er verulega ánægður með að hafa endurheimt Sigfús úr helju en á tíma óttuðust menn að hann gæti ekki leikið handknattleik á ný. "Hann hefur staðið sig mjög vel í vörninni og það munar verulega um hann þar. Hann er sterkur, stýrir varnarleiknum vel og lætur duglega í sér heyra. Það er stórmunur á varnarleiknum eftir að hann kom aftur," sagði Alfreð en hann hefur aðeins notað Sigfús í vörninni það sem af er. "Hann þarf að koma sér í betra form áður en hann fer í sóknina en það kemur. Úthaldið er ágætt en það tekur tíma að ná toppformi á nýjan leik." Sigfús var mættur í vörnina hjá Alfreð þegar Magdeburg tryggði sér sæti í úrslitum EHF-keppninnar með 34-32 sigri á Gummersbach en Alfreð og félagar töpuðu fyrri leiknum 25-24, þannig að aðeins munaði einu marki á liðunum samanlagt. Alfreð segir baráttuna ekki hafa verið eins jafna og hún lítur út fyrir að vera. "Við vorum komnir með tíu marka forystu, 28-18, á tímabili þannig að þetta var mjög öruggt. Við vorum byrjaðir að halda upp á sigurinn átta mínútum fyrir leikslok, sungum með áhorfendunum. Ég leyfði ungu strákunum að spila undir lokin og þetta var mikil stemning. Verulega gaman," sagði Alfreð Gíslason, þjálfari Magdeburg.