Tjáningarfrelsið og fjölmiðlar 14. apríl 2005 00:01 Vitið þið að ég má í þessum pistlum mínum fjalla um hvað sem mér sýnist. Það er ekkert undir sólinni sem mér er bannað að fjalla um. Ég gæti komið hér með langan og ítarlegan pistil um Gunnar Smára Egilsson sem er yfirmaður, yfirmanns míns hér á Talstöðinni, hans Illuga Jökulssonar, og þar af leiðandi yfir-yfirmaður minn eða ég gæti komið með langan pistill um álit mitt á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, honum sem persónu eða bara umsvifum hans á íslenskum fjölmiðlamarkaði og það er ólíklegt að það myndi hafa nokkur áhrif á störf mín hér innan þessa fyrirtækis sem er 365 ljósvakamiðlar. En það myndi nú kannski gera það ef að umfjöllunin væri rætin persónuleg árás, ekki það að ég hafi nokkra ástæðu til þess að fara útí eitthvað slíkt. En það væri sumsé hægt að hugsa sér það að Jón Ásgeir myndi hringja í Gunnar Smára og segja við hann: heyrðu svona mann vil ég ekki hafa í vinnu í fyrirtækinu mínu. Og það væri hægt að hugsa sér það að Gunnar Smári myndi hringja í Illuga og segja honum að það væri nú hreint ekki vel séð að svona maður eins og hann Róbert Marshall væri að níðast á eigendum fyrirtæksins í útvarpinu og það er líka hugsanlegt að Illugi myndi verða þessu sammála. Öll sjáum við að þetta er hugsanlegt í sjálfu sér. Nú af þessu leiðir að væri það skoðun mín að Illugi sé lufsa, Gunnar Smári handbendi illmenna og Jón Ásgeir illmenni, þá mætti ég vita það að því yrði ekki vel tekið ef ég færi að útvarpa þeirri skoðun minni hér og það kynni að hafa þær afleiðingar að dögum mínum í starfi í þessu fyrirtæki myndi fækka. En þetta eru alls ekki skoðanir mínar. Hér er það sumsé starf mitt að hafa skoðanir á hlutunum eins og ætlast er til af pistlahöfundum og þetta dæmi sem ég var að nefna hér, nefni ég til þess að sýna fram á nauðsyn og ágæti þess að hér í landinu séu reknir miðlar þar sem menn geta komið á framfæri sínum skoðunum án þess að þessir ágætu menn Illugi, Gunnar Smári eða Jón Ásgeir hafi nokkuð um það að segja. Það segir í sjötugustu og þriðju grein stjórnarskrár íslands að allir séu frjálsir skoðanna sinna og sannfæringar. Hver maður hefur rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgast verður hann þær fyrir dómi. Þið sjáið því að ég hef rétt á því að hafa hvaða skoðanir sem er samkvæmt því heilagasta af öllu heilögu í lagabókum okkar samfélags, sjálfri stjórnarskránni. Þið sjáið líka að ég þarf samkvæmt henni, að ábyrgjast persónulega þær skoðanir mínar fyrir dómstólum. Stjórnarskráin ver þannig líka þá Illuga, Gunnar Smára og Jón Ásgeir fyrir rætinni persónulegri árás af minni hálfu eða annarra. Í stjórnarskránni segir líka að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Ennfremur að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda telist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi og lýðræði eru systkyn. Við vitum að án þess að almenningur sé upplýstur virkar lýðræðið ekki. Það verður bara skugginn af sjálfu sér. Það gerir ráð fyrir að ákvarðanir almennings um hverjir skuli ráða séu byggðar á réttum, nákvæmum og óvilhöllum upplýsingum. Heimspekingurinn pólski Leslie Kolakowski sagði eina tegund frelsis grundvöll allra borgaralegra réttinda. Það er tjáningarfrelsið. Öll önnur réttindi myndu fljótlega hverfa ef það væri ekki til staðar. Það er einkum þrennt sem upplýsingastreymi til almennings og þar af leiðandi lýðræðinu stafar nokkur ógn af. Það fyrsta er tilhneiging ríkisstjórna til að vinna verk sín, í þágu almennings, í skugganum fremur en úti í glampandi sólskini opinberrar umræðu og gagnrýni. Önnur ógnin er tiltölulega nýtilkomin og það ber minna á henni. Það er stefna stórfyrirtækja um gróða, gróða og aftur gróða. Peninga, peninga og meiri peninga. Peningahyggja og fráls og óháð blaðamennska eru ekki systkyn. Þau eru ekki einu sinni skyld. Enda hefur það verið reynslan víða um heim að sjálfstæðar og óháðar fréttir eru á undanhaldi í slíkum fyrirtækjum. Slík fyrirtæki hafa jafnframt haft tilhneigingu til að kaupa þau fyrirtæki sem eru líkleg til að veita þeim samkeppni. Þannig að röddunum fækkar; sjónarmiðunum fækkar og umræðan og upplýsingarnar verða einsleitari. Ímyndið ykkur nú þessar tvær ógnir sameinaðar í þá þriðju og ógnvænlegustu. Það er að segja ríkisstjórn og viðskiptablokk þar sem ríkisstjórnin leggur áherslu á leynd og takmarkað upplýsingaflæði og viðskiptablokkinn leggur áherslu á að græða peninga fremur en að sinna hlutverki sínu í lýðræðisþjóðfélagi, sumsé hlutlaus miðlun upplýsinga. Þetta er ekki veruleiki sem er til staðar á Íslandi í dag. En mjög víða er þetta ógn sem steðjar að lýðræðinu. Lýðræðið er víða í vanda og það er ekki síst stjórnmálamönnunum sjálfum og framkomu þeirra um að kenna. Í þýskalandi treystu fimmtíu og fimm prósent kjósenda sínum þingmanni til að gæta hagsmuna sinna árið 1978. 1992 var þessi tala komin niður í þrjátíu og fjögur prósent. Hafði fallið um rúmlega tuttugu prósentustig. Svíar voru spurðir um afstöðu sína til þess hvort stjórnamálaflokkar hefðu bara áhuga á atkvæðum kjósenda en ekki skoðunum þeirra árið 1968 og þá voru 49 prósent Svía sammála þessu. 1994 voru 72 prósent Svía þessu sammála. Tveimur árum síðar, í annari könnun, kom í ljós að aðeins 19 prósent Svía höfðu trú á þjóðþinginu. Ég fann ekkert svona um ísland. En hvað um það. Það getur líka verið tákn um heilbrigt lýðræði þegar borgararnir efast um yfirvöld. Árið 1934 varð það ljóst í bandaríkjunum, með tilkomu stóra fyrirtækja sem lögðu undir sig keðju dagblaða í stærstu borgum landsins og með sambærilegri þróun á hinum unga útvarpsmarkaði, að eitthvað varð að gera. Það voru því sett lög sem nefndust The Federal Communications Act eða alríkislögjöf um fjölmiðlun. Hver var yfirlýstur tilgangur þessara laga? Jú að tryggja almannahag. Að koma í veg fyrir að til yrði einokun þar sem sjónarmið gróða hefði meira gildi en lýðræðisleg sjónarmið. Til að tryggja að sýn hinna ráðandi afla á raunveruleikann, hvort sem væri stjórnvalda eða eigenda fyrirtækja, væri ekki sú eina sem kæmi fyrir augu almennings. Nú gerist það í bandaríkjunum í dag að eigendur stórfyrirtækja á sviði fjölmiðlunnar reyna eftir fremsta megni að fá reglum um eignarhald á fjölmiðlum aflétt. Og sjaldan hefur hanskinn passað betur á höndina eins og nú þegar mætast ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta og eigendur fjölmiðlafyrirtækja í þessum efnum. Þriðja ógnin sem ég nefndi er til staðar og að verki í Bandaríkjunum. Hún er það líka á Ítalíu þar sem ríkasti maðurinn í landinu er jafnframt forsætisráðherra landsins og fyrsti fjölmiðlamógúllinn. Síðast þegar ég vissi þá höfðu Berlusconi, skyldmenni hans eða handbendi, yfir að ráða beint eða óbeint, sjónvarps og útvarpsrásum ríkisins. Stjórnuðu þremur af fjórum einkasjónvarpsstöðvum landsins, tveimur bókaútgáfufyrirtækjum, tveimur dagblöðum á landsvísu, fimmtíu tímaritum, stærsta kvikmyndafyrirtæki landsins og stórum hluta internetþjónustunnar. Síðast þegar ég vissi var maðurinn líka að breyta lögum landsins svo hann gæti keypt fleiri fjölmiðla. Þetta er ógnvænlegt og alveg sérstaklega í ljósi þess að hann virðist ekki neinn sérstakur pappír þessi maður Berlusconi. Oft nefndur í sömu andrá og virðingarleysi við lögin, peningaþvætti, mútur og hagsmunaárekstrar. Ritstjóri The Econimst var spurður að því um árið hvernig stæði á því að breskt hagfræðitímarit eyddi svo mörgum dálksentimetrum í ítalskan forsætisráðherra og svaraði að það væri vegna þess að hann hefði svikið það tvennt sem blaðið stæði fyrir: lýðræði og kapítalisma. Tilgangur frjálsrar útgáfu hefur löngum verið þeim sem vinna við blaðamennsku ljós þó auðvitað ætli ég ekki að gerast svo yfirborðskenndur að halda því fram að blaðamennska sé einhverslags köllun fremur en atvinnugrein. En langt aftur í aldir hefur það sjónarmið verið haft í heiðri að í blaðamennsku skuli ekki felast þjónkun við ráðandi stéttir. Í bók Guðjón Friðrikssonar um sögu fjölmiðlunnar á íslandi er sagt frá stofnun Þjóðólfs haustið 1848 sem bar þannig til að fimm eða sex dökkkæddir karlmenn smeygðu sér í svartamyrkri inn um kirkjugarðshliðið í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Þeir létu lítið fara fyrir sér eins og þeir hefðu eitthvað að fela og ætluðu að fara að vinna einhver myrkraverk. Mennirnir settust á leiði og byrjuðu að skrafa saman af miklum ákafa en gættu þess þó að tala í hálfum hljóðum. Eftir drykklanga stund og mikið hljóðskraf tókust þeir allir í hendur og gengu burtu hver til síns heima. Ákvörðunin sem tekin var í myrkrinu í kirkjugarðinum var að stofna blað, alvörublað sem átti að hafa það að markmiði að vekja þjóðina til dáða; ekkert embættismannablað, ekkert afturhaldsblað, ekkert lognmollublað heldur alvöru fréttablað sem kæmi út hálfsmánaðarlega. Séra Sveinbjörn Hallgrímsson varð ritstjóri Þjóðólfs og fyrsti atvinnublaðamaðurinn á íslandi. Hann var ör og heitur og sást ekki alltaf fyrir í skrifum sínum og gerðum. Íhaldssamir embættismenn í Reykjavík voru algerlega óvanir og óviðbúnir því að hnýtt væri í þá opinberlega og jafnvel gert grín að þeim. Hinn tíunda júní 1849 birtist grein í Þjóðólfi þar sem sveigt var að háyfirdómara og dómkirkjupresti sem báðir bjuggu í Reykjavík. Þeir söfnuðu öllum tölublöðum af Þjóðólfi sem þá voru komin út og efndu til blaðabrennu á landakotstúni. Þjóðólfur gerði skop mikið að brennunni í næsta blaði og sagði að nú væri blaðið orðið píslarvottur þó að þeir sem staðið höfðu fyrir brennunni hefður áður jafnan kallað það meinlaust. Höfðingjarnir í Reykjavík máttu ekki hugsa til þess að Þjóðólfur væri eina blaðið í Reykavik en Reykjavíkurpósturinn, sem kom mun sjaldnar út, var um þessar mundir að leggja upp laupana. Því stofnuðu stiftsyfirvöldin, það er að segja stiftamtmaður og biskup, nýtt blað sem átti að koma út hálfsmánaðarlega eins og Þjóðólfur. Það hét Landstíðindi og þar með er hafin raunveruleg samkeppni á íslenskum blaðamarkaði. Nú Þjóðólfur var háður því að fá prentun í Landsprentsmiðjunni sem var undir stjórn sömu stiftsyfirvalda og gáfu út Landstíðindi og ekki leið á löngu þar til Séra Sveinbirni var tilkynnt að ekki væri hægt að prenta Þjóðólf í smiðjunni sökum anna við prentun alþingistíðinda. Mikið þjark og þref hófst nú á milli Sveinbjarnar og stiftsyfirvalda sem féllust á að prenta blaðið ef prentunin væri greidd fyrirfram sem Sveinbjörn gat ekki en gat þó lagt fram veð í jörð nokkurri sem var í eigu ættingja hans. Svona gekk þetta í nokkra mánuði og kraumaði undir niðri. Eftir uppákomu í dómkirkjunni þar sem Sveinbjörn krafðist afsagnar Helga Thordersen, biskups yfir Íslandi, sökum þess hversu lágmæltur hann var sauð uppúr. Málið var talið mikið hneyksli og fyrir útgáfu næsta blaðs kröfðust stiftamtmaðurinn og biskupinn þess að sjá próförk þess áður en það yrði prentað. Tíu dögum síðar neituðu yfirvöld að prenta blaðið lengur. Árinu áður hafði prentfrelsi verið komið á með grundvallarlögunum í Danmörku en hafði að vísu ekki verið staðfest með sérstökum prentfrelsilögum þar frekar en á Íslandi. Tilskipun yfirvalda braut engur að síður í bága við anda grundvallarlaganna. Almúgi manna virðist hafa verið á bandi ritstjóra Þjóðólfs. Þegar fréttist um bannið skutu bændur í nágrenni Reykjavíkur saman hundrað ríkisdölum á einum sólarhring og tveir ónefndir menn urðu til að lána Sveinbirni hvor sína hundrað dalina. Þessi fjárstuðningur gerði Sveinbirni kleyft að sigla til Kaupmannahafnar og láta prenta hið bannaða blað þar og nefndist það þá Hljóðólfur. Þjóðólfur hóf svo aftur að koma út í Reykjavík þegar Trampe greifi var orðinn stiftamtmaður en hann var mun frjálslyndari en fyrirrennari hans. Prentfrelsislög voru samþykkt á Alþingi þann 5. maí 1855. Þannig að í næsta mánuði á prentfrelsið hundrað og fimmtíu ára afmæli á íslandi. Hvar værum við án þess getum við spurt okkur. Hvað hefði orðið um litla ísland án prentfrelsis. Værum við fullveldi? Værum við sjálfstæð lýðræðisþjóð, stolt velmegandi og frjáls. Ég leyfi mér að efast um það. Þau urðu hins vegar örlög Séra Sveinbjörns Hallgrímssonar að taka við útgáfu Ingólfs sem var blað sem Trampe greifi gaf út og var fyrir vikið úthrópaður leiguliði háyfirvaldana og blað hans leigugripur. Hann hætti í blaðamennsku eftir tvö erfið ár þar sem hann átti ekki sjö dagana sæla. Hann hætti blaðamennsku sama ár og prenfrelsislögin voru samþykkt á Íslandi og gerðist prestur norður í Eyjafirði þar sem hann dó drottni sínum 1863 aðeins fjörtíu og átta ára gamall, blessaður kallinn. Svo því sé nú til haga haldið. Ég er að segja ykkur þetta vegna þess að þetta var barátta og hefur alltaf verið barátta og tjáningarfrelsið er eitthvað sem menn verða alltaf að vita á íslandi, og heiminum öllum, er ein mikilvægasta eign okkar og henni má ekki fórna á altari stjórnmálamanna sem vilja halda vandræðalegum upplýsingum leyndum fyrir almenningi og ekki heldur á altari mammons, á altari viðskiptasjónarmiða þar sem allt snýst um peninga. Til eru þeir sem halda því fram að lög um eignarhald á fjölmiðlum sé atlaga að tjáningarfrelsinu. Ég er ekki sammála því. Þvert á móti. Þeir eru líka til sem halda því fram blákalt að lög um eignarhald á fjölmiðlum eigi aðeins að setja þegar þess er þörf. Þeir spyrja: hvað á að lækna ef enginn er sjúkdómurinn. Menn eru sammála um það að ef þú dregur úr saltneyslu og fituáti þá minnkir þú líkurnar á kransæðasjúkdómum. Þetta eru kallaðar forvarnir. Og ég held að við verðum að grípa til forvarna þegar kemur að eignarhaldi á fjölmiðlum. Við eigum að standa vörð um ríkisútvarpið en við megum ekki láta það kæfa einkareknu miðlana. Við eigum að eiga rödd sem er óháð viðskiptasjónarmiðum. Og við eigum að eiga raddir sem eru óháðar stjórnmálaskoðunum. Við eigum að tryggja það að það séu skýrar reglur um umgengnina við máttarstólp lýðræðisins, um grundvöll allra okkar borgaralegu réttinda. Við eigum að læra af sögunni og við eigum líka að læra af reynslu annara þjóða. Við erum smá en þar með erum við ekkert öðruvísi en önnur lönd. Hér hjúpa stjórnvöld ákvarðanatöku sína leynd, eins og í útlöndum, og hér vilja stórfyrirtæki græða, eins og í útlöndum. Lærum af tilraunum Nixon stjórnarinnar í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir að Pentagon skjölin væru birt. Af tilraunum Carter stjórnarinnar til að koma í veg fyrir að grein sem nefndist “ Hvernig býr maður til vetnissprengju” yrði birt. Þar voru upplýsingar birtar sem voru öllum opnar á bókasöfnum en ríkisstjórnin hélt því fram að þær væru trúnaðarmál. Lærum líka af Michael Eisner, svo nýlegri dæmi séu tekin, sem vildi ekki að ABC fréttastofan segði fréttir af Disney sem átti ABC. Og af Robert Wright sem stjórnar General Elecric og þar með NBC sem vildi ekki hafa pistlahöfund sem gæti móðgað Repúblíkana á meðan á innrásinni í Írak stóð. Og af Leslie Monves hjá CBS, sama fyrirtæki og framleiðir Sextíu mínútur, sem þorði ekki að sýna sjónvarpsþætti um Ronald Regan vegna þess að repúblíkanar, sem reyndar höfðu ekki séð þættina, trylltust. Héldu að ekki væri fjallað af nægilegri virðingu um átrúnaðargoð sitt. Sporin hræða þegar viðskiptasjónarmið blandast við pólitík í fjölmiðlum. Þetta sýnir okkur líka að lög um fjölmiðla eru ekki bara lög um blaðamennsku þau eru lög um fjölmiðla og það er svo margt sem ekki fellur undir þau sjónarmið og þau gildi sem sjálfstæð og óháð blaðamennska heiðrar, sem engu að síður skiptir máli fyrir almenning. Hvað er fjölmiðlun? Það er ansi vítt svið sem fellur undir er ég hræddur um. Ég starfa í fjölmiðlum en mín vinna hefur verið töluvert frábrugðin þeirri vinnu sem t.d. minn ágæti kunningi Hemmi Gunn hefur unnið við í fjölmiðlun. Hvað ef honum væri uppálagt að fá aldrei til sín hægrisinnaða menn í þáttinn Það var lagið? Væri það lagið? Hvað ef Sirrí á Skjá einum mætti aldrei tala við neinn sem vinnur hjá 365 miðlum. Væri það allt í lagi? Hvað ef Séð og heyrt væri bannað af sínum eigendum að fjalla um fólk yfir fimmtíu ára aldri. Gengur það? Gætu slík viðskiptasjónarmið og slík stjórnmálasjónarmið talist eðlileg, því jú varla fellur þeirra vinna undir það sem við köllum frjálsa og óháða blaðamennsku lýðræðinu til heilla. Ekki koma þarna fram upplýsingar sem skipta sköpum í t.d. þingkosningum á íslandi. Eða hvað? Er það ekki? Eru þetta ekki allt raddir og andlit sem þurfa að sjást og heyrast svo við getum talist lýðræðislegt, opið og frjálst samfélag. Ég er nú hræddur um það. Menn geta deilt um prósentur, um hversu langt eigi að ganga, hvort ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði og svo framvegis og framvegis en ég held að við ættum ekki að deila um það hvort þörf sé á lögum um fjölmiðla. Það er líka ýmislegt sem fjölmiðlar geta gert án þess að til þurfi lagasetningu. Ég hitti og ræddi við á dögunum stjórnanda hjá Orkla Group í Noregi. Stig nokkurn Finslow sem er reyndar blaðamaður og reyndar þriðja kynslóð blaðamanna því hans fjölskylda hefur helgað sig þessari köllun skástrik atvinnu. Orkla Group er umsvifamikið fjölmiðlafyrirtæki á norðurlöndum, í eystrasaltsríkjunum, Pólandi og nú síðast í Úkraínu. Þeir gefa út fimm bréf sem eru nokkurs konar yfirlýsingar til almennings. Fyrir það fyrsta er bréf útgefanda sem lýsir markmiðum þeirra og tilgangi útgáfunnar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að fyrsta markmiðið er að græða peninga. En þeir segja líka frá því hvernig þeir vilji gera það. Með trúverðugum og sjálfstæðum miðlum. Þeir lýsa þar félagslegum skyldum sínum sem fyrirtækis í samfélaginu. Við vitum, eða ættum að vita, að fyrirtæki ekki síður en við borgararnir þiggjum ekki bara réttindi af hálfu samfélagsins. Við berum líka skyldur. Við getum ekki hagað okkur hvernig sem er og ekki bara hugað það eitt að græða peninga án tillits til þess hvernig við gerum það. Fyrirtæki njóta þeirrar uppbyggingar sem samfélagið hefur staðið fyrir. Vegakerfis, fjármálakerfis, lagareglna, öryggis, löggæslu og ekki síst aðgangs að vinnuafli. Jú, þau greiða skatta og opinber gjöld en þau eiga líka að koma vel fram við almenning og það þarf að fá þau til að lýsa þessu yfir. Þau lifa ekki í einhverju tómarúmi heldur í samfélagi. Þetta gerir Orkla group og lýsir því t.d. yfir að það hafi skyldum að gegna í upplýsingamiðlun til almennings. Í þessari yfirlýsing felst ábyrgð og með henni verður til áþreifanleg krafa almennings um að fyrirtækið standi við þessi orð sín. Í annan stað birtir Orkla frelsisyfirlýsingu ritstjóra. Hún fjallar um verksvið þeirra og valdsvið. Hverju þeir ráða og hverju stjórnendurnir ráða. Gagnsemi slíkrar yfirlýsingar er augljós. Í þriðja lagi eru vinnureglur blaðamanna sem byggðar eru á siðareglum blaðamanna. Það er sumsé skilgreint hvað teljist góð og gild blaðamennska. Í fjórða lagi eru siðareglur auglýsingadeildar. Þar er fjallað um þann kínamúr sem á að vera til staðar á milli fréttaflutnings annars vegar, og auglýsingasölu hins vegar. Þar er viðurkennt að hagsmunir þessara tveggja ólíku þátta fjölmiðlunnar eru ólíkir og eiga ekki að skarast. Í fimmta lagi er greint frá því hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða reglur gilda um framkomu stjórnenda við sína undirmenn og svo framvegis. Þetta eykur á gegnsæi fyrirtækisins og tryggir að almenningi sé ljóst hvaða kröfur hann á á hendur fjölmiðlinum og lýsir því lika yfir hvaða skyldur fyrirtækið hefur. Um samfélagslegar skyldur fyrirtækja hefur löngum verið deilt. Einu sinni var það talin sjálfsögð og viðtekin hugsun að fyrirtæki ættu bara að græða peninga. Ég sagði hér í upphafi míns máls að stórfyrirtæki hugsuðu ekki um annað. Það þýðir ekki að mér þyki það slæmt. Mér þykir það mjög gott ef fyrirtæki græða peninga, sérstaklega ef það er fyrirtæki sem ég þigg launin mín hjá. Ég hef upplifað það sjálfur hvað verður um fréttaflutning í fyrirtæki sem tapar peningum og er við það að fara á hausinn. Fréttaflutningurinn verður minni að efnum og gæðum. Þannig að samfélagsleg skylda fyrirtækisins leið fyrir peningaleysið. Önnur fyrirtæki á öðrum sviðum hafa líka tileinkað sér þessa hugsun á síðari árum. Ray nokkur Anderson, sem er stofnandi Interface, sem er ekki fjölmiðlafyrirtæki, það framleiðir teppi, er ákafur talsmaður félagslegrar skyldu fyrirtækja. Hann heldur því fram að fyrirtæki verði að huga að þeim skaða sem þau valda náttúrunni og samfélaginu og finna leiðir til að draga úr honum. Þannig viðhaldi þau getu sinni til starfa og til að uppfylla aðalmarkmiðið sem er, að græða peninga. Clive Crook, sem er ritstjórnarfulltrúi the Economist, segir að það að fyrirtæki sem endurgróðursetji tré sem það t.d. hefur nýtt, komi vel fram við starfsmenn sína og segi alltaf satt og rétt frá afkomu sinni, sé ekki að uppfylla neinar félagslegar skyldur. Þetta sé einfaldlega bara góður rekstur. Klisjan er sumsé sú að til að ganga vel þurfi fyrirtæki að gera vel. Og klisjur eru klisjur vegna þess að margir eru sammála um sannleiksgildi þeirra. Ég held að bandaríski forsetaframbjóðandinn sem ég er óbeint að hafa þetta eftir, hafi tapað kosningunum. Þess vegna man ég ekki hvað hann heitir. Þetta er kannski ekki rétt. En trúið öllu hinu sem ég sagði. Róbert Marshall -marshall@press.is Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Á kassanum Illugi Jökulsson Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson Skoðun Skoðun Skoðun Raforkunotkun gagnavera minnkað mikið Tinna Traustadóttir skrifar Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson skrifar Skoðun Göngum fyrir friði Guttormur Þorsteinsson skrifar Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson skrifar Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson skrifar Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson skrifar Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson skrifar Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð skrifar Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson skrifar Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hugleiðing um listamannalaun III Þórhallur Guðmundsson skrifar Sjá meira
Vitið þið að ég má í þessum pistlum mínum fjalla um hvað sem mér sýnist. Það er ekkert undir sólinni sem mér er bannað að fjalla um. Ég gæti komið hér með langan og ítarlegan pistil um Gunnar Smára Egilsson sem er yfirmaður, yfirmanns míns hér á Talstöðinni, hans Illuga Jökulssonar, og þar af leiðandi yfir-yfirmaður minn eða ég gæti komið með langan pistill um álit mitt á Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, honum sem persónu eða bara umsvifum hans á íslenskum fjölmiðlamarkaði og það er ólíklegt að það myndi hafa nokkur áhrif á störf mín hér innan þessa fyrirtækis sem er 365 ljósvakamiðlar. En það myndi nú kannski gera það ef að umfjöllunin væri rætin persónuleg árás, ekki það að ég hafi nokkra ástæðu til þess að fara útí eitthvað slíkt. En það væri sumsé hægt að hugsa sér það að Jón Ásgeir myndi hringja í Gunnar Smára og segja við hann: heyrðu svona mann vil ég ekki hafa í vinnu í fyrirtækinu mínu. Og það væri hægt að hugsa sér það að Gunnar Smári myndi hringja í Illuga og segja honum að það væri nú hreint ekki vel séð að svona maður eins og hann Róbert Marshall væri að níðast á eigendum fyrirtæksins í útvarpinu og það er líka hugsanlegt að Illugi myndi verða þessu sammála. Öll sjáum við að þetta er hugsanlegt í sjálfu sér. Nú af þessu leiðir að væri það skoðun mín að Illugi sé lufsa, Gunnar Smári handbendi illmenna og Jón Ásgeir illmenni, þá mætti ég vita það að því yrði ekki vel tekið ef ég færi að útvarpa þeirri skoðun minni hér og það kynni að hafa þær afleiðingar að dögum mínum í starfi í þessu fyrirtæki myndi fækka. En þetta eru alls ekki skoðanir mínar. Hér er það sumsé starf mitt að hafa skoðanir á hlutunum eins og ætlast er til af pistlahöfundum og þetta dæmi sem ég var að nefna hér, nefni ég til þess að sýna fram á nauðsyn og ágæti þess að hér í landinu séu reknir miðlar þar sem menn geta komið á framfæri sínum skoðunum án þess að þessir ágætu menn Illugi, Gunnar Smári eða Jón Ásgeir hafi nokkuð um það að segja. Það segir í sjötugustu og þriðju grein stjórnarskrár íslands að allir séu frjálsir skoðanna sinna og sannfæringar. Hver maður hefur rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgast verður hann þær fyrir dómi. Þið sjáið því að ég hef rétt á því að hafa hvaða skoðanir sem er samkvæmt því heilagasta af öllu heilögu í lagabókum okkar samfélags, sjálfri stjórnarskránni. Þið sjáið líka að ég þarf samkvæmt henni, að ábyrgjast persónulega þær skoðanir mínar fyrir dómstólum. Stjórnarskráin ver þannig líka þá Illuga, Gunnar Smára og Jón Ásgeir fyrir rætinni persónulegri árás af minni hálfu eða annarra. Í stjórnarskránni segir líka að ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Ennfremur að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda telist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi og lýðræði eru systkyn. Við vitum að án þess að almenningur sé upplýstur virkar lýðræðið ekki. Það verður bara skugginn af sjálfu sér. Það gerir ráð fyrir að ákvarðanir almennings um hverjir skuli ráða séu byggðar á réttum, nákvæmum og óvilhöllum upplýsingum. Heimspekingurinn pólski Leslie Kolakowski sagði eina tegund frelsis grundvöll allra borgaralegra réttinda. Það er tjáningarfrelsið. Öll önnur réttindi myndu fljótlega hverfa ef það væri ekki til staðar. Það er einkum þrennt sem upplýsingastreymi til almennings og þar af leiðandi lýðræðinu stafar nokkur ógn af. Það fyrsta er tilhneiging ríkisstjórna til að vinna verk sín, í þágu almennings, í skugganum fremur en úti í glampandi sólskini opinberrar umræðu og gagnrýni. Önnur ógnin er tiltölulega nýtilkomin og það ber minna á henni. Það er stefna stórfyrirtækja um gróða, gróða og aftur gróða. Peninga, peninga og meiri peninga. Peningahyggja og fráls og óháð blaðamennska eru ekki systkyn. Þau eru ekki einu sinni skyld. Enda hefur það verið reynslan víða um heim að sjálfstæðar og óháðar fréttir eru á undanhaldi í slíkum fyrirtækjum. Slík fyrirtæki hafa jafnframt haft tilhneigingu til að kaupa þau fyrirtæki sem eru líkleg til að veita þeim samkeppni. Þannig að röddunum fækkar; sjónarmiðunum fækkar og umræðan og upplýsingarnar verða einsleitari. Ímyndið ykkur nú þessar tvær ógnir sameinaðar í þá þriðju og ógnvænlegustu. Það er að segja ríkisstjórn og viðskiptablokk þar sem ríkisstjórnin leggur áherslu á leynd og takmarkað upplýsingaflæði og viðskiptablokkinn leggur áherslu á að græða peninga fremur en að sinna hlutverki sínu í lýðræðisþjóðfélagi, sumsé hlutlaus miðlun upplýsinga. Þetta er ekki veruleiki sem er til staðar á Íslandi í dag. En mjög víða er þetta ógn sem steðjar að lýðræðinu. Lýðræðið er víða í vanda og það er ekki síst stjórnmálamönnunum sjálfum og framkomu þeirra um að kenna. Í þýskalandi treystu fimmtíu og fimm prósent kjósenda sínum þingmanni til að gæta hagsmuna sinna árið 1978. 1992 var þessi tala komin niður í þrjátíu og fjögur prósent. Hafði fallið um rúmlega tuttugu prósentustig. Svíar voru spurðir um afstöðu sína til þess hvort stjórnamálaflokkar hefðu bara áhuga á atkvæðum kjósenda en ekki skoðunum þeirra árið 1968 og þá voru 49 prósent Svía sammála þessu. 1994 voru 72 prósent Svía þessu sammála. Tveimur árum síðar, í annari könnun, kom í ljós að aðeins 19 prósent Svía höfðu trú á þjóðþinginu. Ég fann ekkert svona um ísland. En hvað um það. Það getur líka verið tákn um heilbrigt lýðræði þegar borgararnir efast um yfirvöld. Árið 1934 varð það ljóst í bandaríkjunum, með tilkomu stóra fyrirtækja sem lögðu undir sig keðju dagblaða í stærstu borgum landsins og með sambærilegri þróun á hinum unga útvarpsmarkaði, að eitthvað varð að gera. Það voru því sett lög sem nefndust The Federal Communications Act eða alríkislögjöf um fjölmiðlun. Hver var yfirlýstur tilgangur þessara laga? Jú að tryggja almannahag. Að koma í veg fyrir að til yrði einokun þar sem sjónarmið gróða hefði meira gildi en lýðræðisleg sjónarmið. Til að tryggja að sýn hinna ráðandi afla á raunveruleikann, hvort sem væri stjórnvalda eða eigenda fyrirtækja, væri ekki sú eina sem kæmi fyrir augu almennings. Nú gerist það í bandaríkjunum í dag að eigendur stórfyrirtækja á sviði fjölmiðlunnar reyna eftir fremsta megni að fá reglum um eignarhald á fjölmiðlum aflétt. Og sjaldan hefur hanskinn passað betur á höndina eins og nú þegar mætast ríkisstjórn Bush Bandaríkjaforseta og eigendur fjölmiðlafyrirtækja í þessum efnum. Þriðja ógnin sem ég nefndi er til staðar og að verki í Bandaríkjunum. Hún er það líka á Ítalíu þar sem ríkasti maðurinn í landinu er jafnframt forsætisráðherra landsins og fyrsti fjölmiðlamógúllinn. Síðast þegar ég vissi þá höfðu Berlusconi, skyldmenni hans eða handbendi, yfir að ráða beint eða óbeint, sjónvarps og útvarpsrásum ríkisins. Stjórnuðu þremur af fjórum einkasjónvarpsstöðvum landsins, tveimur bókaútgáfufyrirtækjum, tveimur dagblöðum á landsvísu, fimmtíu tímaritum, stærsta kvikmyndafyrirtæki landsins og stórum hluta internetþjónustunnar. Síðast þegar ég vissi var maðurinn líka að breyta lögum landsins svo hann gæti keypt fleiri fjölmiðla. Þetta er ógnvænlegt og alveg sérstaklega í ljósi þess að hann virðist ekki neinn sérstakur pappír þessi maður Berlusconi. Oft nefndur í sömu andrá og virðingarleysi við lögin, peningaþvætti, mútur og hagsmunaárekstrar. Ritstjóri The Econimst var spurður að því um árið hvernig stæði á því að breskt hagfræðitímarit eyddi svo mörgum dálksentimetrum í ítalskan forsætisráðherra og svaraði að það væri vegna þess að hann hefði svikið það tvennt sem blaðið stæði fyrir: lýðræði og kapítalisma. Tilgangur frjálsrar útgáfu hefur löngum verið þeim sem vinna við blaðamennsku ljós þó auðvitað ætli ég ekki að gerast svo yfirborðskenndur að halda því fram að blaðamennska sé einhverslags köllun fremur en atvinnugrein. En langt aftur í aldir hefur það sjónarmið verið haft í heiðri að í blaðamennsku skuli ekki felast þjónkun við ráðandi stéttir. Í bók Guðjón Friðrikssonar um sögu fjölmiðlunnar á íslandi er sagt frá stofnun Þjóðólfs haustið 1848 sem bar þannig til að fimm eða sex dökkkæddir karlmenn smeygðu sér í svartamyrkri inn um kirkjugarðshliðið í gamla kirkjugarðinum í Reykjavík á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis. Þeir létu lítið fara fyrir sér eins og þeir hefðu eitthvað að fela og ætluðu að fara að vinna einhver myrkraverk. Mennirnir settust á leiði og byrjuðu að skrafa saman af miklum ákafa en gættu þess þó að tala í hálfum hljóðum. Eftir drykklanga stund og mikið hljóðskraf tókust þeir allir í hendur og gengu burtu hver til síns heima. Ákvörðunin sem tekin var í myrkrinu í kirkjugarðinum var að stofna blað, alvörublað sem átti að hafa það að markmiði að vekja þjóðina til dáða; ekkert embættismannablað, ekkert afturhaldsblað, ekkert lognmollublað heldur alvöru fréttablað sem kæmi út hálfsmánaðarlega. Séra Sveinbjörn Hallgrímsson varð ritstjóri Þjóðólfs og fyrsti atvinnublaðamaðurinn á íslandi. Hann var ör og heitur og sást ekki alltaf fyrir í skrifum sínum og gerðum. Íhaldssamir embættismenn í Reykjavík voru algerlega óvanir og óviðbúnir því að hnýtt væri í þá opinberlega og jafnvel gert grín að þeim. Hinn tíunda júní 1849 birtist grein í Þjóðólfi þar sem sveigt var að háyfirdómara og dómkirkjupresti sem báðir bjuggu í Reykjavík. Þeir söfnuðu öllum tölublöðum af Þjóðólfi sem þá voru komin út og efndu til blaðabrennu á landakotstúni. Þjóðólfur gerði skop mikið að brennunni í næsta blaði og sagði að nú væri blaðið orðið píslarvottur þó að þeir sem staðið höfðu fyrir brennunni hefður áður jafnan kallað það meinlaust. Höfðingjarnir í Reykjavík máttu ekki hugsa til þess að Þjóðólfur væri eina blaðið í Reykavik en Reykjavíkurpósturinn, sem kom mun sjaldnar út, var um þessar mundir að leggja upp laupana. Því stofnuðu stiftsyfirvöldin, það er að segja stiftamtmaður og biskup, nýtt blað sem átti að koma út hálfsmánaðarlega eins og Þjóðólfur. Það hét Landstíðindi og þar með er hafin raunveruleg samkeppni á íslenskum blaðamarkaði. Nú Þjóðólfur var háður því að fá prentun í Landsprentsmiðjunni sem var undir stjórn sömu stiftsyfirvalda og gáfu út Landstíðindi og ekki leið á löngu þar til Séra Sveinbirni var tilkynnt að ekki væri hægt að prenta Þjóðólf í smiðjunni sökum anna við prentun alþingistíðinda. Mikið þjark og þref hófst nú á milli Sveinbjarnar og stiftsyfirvalda sem féllust á að prenta blaðið ef prentunin væri greidd fyrirfram sem Sveinbjörn gat ekki en gat þó lagt fram veð í jörð nokkurri sem var í eigu ættingja hans. Svona gekk þetta í nokkra mánuði og kraumaði undir niðri. Eftir uppákomu í dómkirkjunni þar sem Sveinbjörn krafðist afsagnar Helga Thordersen, biskups yfir Íslandi, sökum þess hversu lágmæltur hann var sauð uppúr. Málið var talið mikið hneyksli og fyrir útgáfu næsta blaðs kröfðust stiftamtmaðurinn og biskupinn þess að sjá próförk þess áður en það yrði prentað. Tíu dögum síðar neituðu yfirvöld að prenta blaðið lengur. Árinu áður hafði prentfrelsi verið komið á með grundvallarlögunum í Danmörku en hafði að vísu ekki verið staðfest með sérstökum prentfrelsilögum þar frekar en á Íslandi. Tilskipun yfirvalda braut engur að síður í bága við anda grundvallarlaganna. Almúgi manna virðist hafa verið á bandi ritstjóra Þjóðólfs. Þegar fréttist um bannið skutu bændur í nágrenni Reykjavíkur saman hundrað ríkisdölum á einum sólarhring og tveir ónefndir menn urðu til að lána Sveinbirni hvor sína hundrað dalina. Þessi fjárstuðningur gerði Sveinbirni kleyft að sigla til Kaupmannahafnar og láta prenta hið bannaða blað þar og nefndist það þá Hljóðólfur. Þjóðólfur hóf svo aftur að koma út í Reykjavík þegar Trampe greifi var orðinn stiftamtmaður en hann var mun frjálslyndari en fyrirrennari hans. Prentfrelsislög voru samþykkt á Alþingi þann 5. maí 1855. Þannig að í næsta mánuði á prentfrelsið hundrað og fimmtíu ára afmæli á íslandi. Hvar værum við án þess getum við spurt okkur. Hvað hefði orðið um litla ísland án prentfrelsis. Værum við fullveldi? Værum við sjálfstæð lýðræðisþjóð, stolt velmegandi og frjáls. Ég leyfi mér að efast um það. Þau urðu hins vegar örlög Séra Sveinbjörns Hallgrímssonar að taka við útgáfu Ingólfs sem var blað sem Trampe greifi gaf út og var fyrir vikið úthrópaður leiguliði háyfirvaldana og blað hans leigugripur. Hann hætti í blaðamennsku eftir tvö erfið ár þar sem hann átti ekki sjö dagana sæla. Hann hætti blaðamennsku sama ár og prenfrelsislögin voru samþykkt á Íslandi og gerðist prestur norður í Eyjafirði þar sem hann dó drottni sínum 1863 aðeins fjörtíu og átta ára gamall, blessaður kallinn. Svo því sé nú til haga haldið. Ég er að segja ykkur þetta vegna þess að þetta var barátta og hefur alltaf verið barátta og tjáningarfrelsið er eitthvað sem menn verða alltaf að vita á íslandi, og heiminum öllum, er ein mikilvægasta eign okkar og henni má ekki fórna á altari stjórnmálamanna sem vilja halda vandræðalegum upplýsingum leyndum fyrir almenningi og ekki heldur á altari mammons, á altari viðskiptasjónarmiða þar sem allt snýst um peninga. Til eru þeir sem halda því fram að lög um eignarhald á fjölmiðlum sé atlaga að tjáningarfrelsinu. Ég er ekki sammála því. Þvert á móti. Þeir eru líka til sem halda því fram blákalt að lög um eignarhald á fjölmiðlum eigi aðeins að setja þegar þess er þörf. Þeir spyrja: hvað á að lækna ef enginn er sjúkdómurinn. Menn eru sammála um það að ef þú dregur úr saltneyslu og fituáti þá minnkir þú líkurnar á kransæðasjúkdómum. Þetta eru kallaðar forvarnir. Og ég held að við verðum að grípa til forvarna þegar kemur að eignarhaldi á fjölmiðlum. Við eigum að standa vörð um ríkisútvarpið en við megum ekki láta það kæfa einkareknu miðlana. Við eigum að eiga rödd sem er óháð viðskiptasjónarmiðum. Og við eigum að eiga raddir sem eru óháðar stjórnmálaskoðunum. Við eigum að tryggja það að það séu skýrar reglur um umgengnina við máttarstólp lýðræðisins, um grundvöll allra okkar borgaralegu réttinda. Við eigum að læra af sögunni og við eigum líka að læra af reynslu annara þjóða. Við erum smá en þar með erum við ekkert öðruvísi en önnur lönd. Hér hjúpa stjórnvöld ákvarðanatöku sína leynd, eins og í útlöndum, og hér vilja stórfyrirtæki græða, eins og í útlöndum. Lærum af tilraunum Nixon stjórnarinnar í Bandaríkjunum til að koma í veg fyrir að Pentagon skjölin væru birt. Af tilraunum Carter stjórnarinnar til að koma í veg fyrir að grein sem nefndist “ Hvernig býr maður til vetnissprengju” yrði birt. Þar voru upplýsingar birtar sem voru öllum opnar á bókasöfnum en ríkisstjórnin hélt því fram að þær væru trúnaðarmál. Lærum líka af Michael Eisner, svo nýlegri dæmi séu tekin, sem vildi ekki að ABC fréttastofan segði fréttir af Disney sem átti ABC. Og af Robert Wright sem stjórnar General Elecric og þar með NBC sem vildi ekki hafa pistlahöfund sem gæti móðgað Repúblíkana á meðan á innrásinni í Írak stóð. Og af Leslie Monves hjá CBS, sama fyrirtæki og framleiðir Sextíu mínútur, sem þorði ekki að sýna sjónvarpsþætti um Ronald Regan vegna þess að repúblíkanar, sem reyndar höfðu ekki séð þættina, trylltust. Héldu að ekki væri fjallað af nægilegri virðingu um átrúnaðargoð sitt. Sporin hræða þegar viðskiptasjónarmið blandast við pólitík í fjölmiðlum. Þetta sýnir okkur líka að lög um fjölmiðla eru ekki bara lög um blaðamennsku þau eru lög um fjölmiðla og það er svo margt sem ekki fellur undir þau sjónarmið og þau gildi sem sjálfstæð og óháð blaðamennska heiðrar, sem engu að síður skiptir máli fyrir almenning. Hvað er fjölmiðlun? Það er ansi vítt svið sem fellur undir er ég hræddur um. Ég starfa í fjölmiðlum en mín vinna hefur verið töluvert frábrugðin þeirri vinnu sem t.d. minn ágæti kunningi Hemmi Gunn hefur unnið við í fjölmiðlun. Hvað ef honum væri uppálagt að fá aldrei til sín hægrisinnaða menn í þáttinn Það var lagið? Væri það lagið? Hvað ef Sirrí á Skjá einum mætti aldrei tala við neinn sem vinnur hjá 365 miðlum. Væri það allt í lagi? Hvað ef Séð og heyrt væri bannað af sínum eigendum að fjalla um fólk yfir fimmtíu ára aldri. Gengur það? Gætu slík viðskiptasjónarmið og slík stjórnmálasjónarmið talist eðlileg, því jú varla fellur þeirra vinna undir það sem við köllum frjálsa og óháða blaðamennsku lýðræðinu til heilla. Ekki koma þarna fram upplýsingar sem skipta sköpum í t.d. þingkosningum á íslandi. Eða hvað? Er það ekki? Eru þetta ekki allt raddir og andlit sem þurfa að sjást og heyrast svo við getum talist lýðræðislegt, opið og frjálst samfélag. Ég er nú hræddur um það. Menn geta deilt um prósentur, um hversu langt eigi að ganga, hvort ríkisútvarpið eigi að vera á auglýsingamarkaði og svo framvegis og framvegis en ég held að við ættum ekki að deila um það hvort þörf sé á lögum um fjölmiðla. Það er líka ýmislegt sem fjölmiðlar geta gert án þess að til þurfi lagasetningu. Ég hitti og ræddi við á dögunum stjórnanda hjá Orkla Group í Noregi. Stig nokkurn Finslow sem er reyndar blaðamaður og reyndar þriðja kynslóð blaðamanna því hans fjölskylda hefur helgað sig þessari köllun skástrik atvinnu. Orkla Group er umsvifamikið fjölmiðlafyrirtæki á norðurlöndum, í eystrasaltsríkjunum, Pólandi og nú síðast í Úkraínu. Þeir gefa út fimm bréf sem eru nokkurs konar yfirlýsingar til almennings. Fyrir það fyrsta er bréf útgefanda sem lýsir markmiðum þeirra og tilgangi útgáfunnar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að fyrsta markmiðið er að græða peninga. En þeir segja líka frá því hvernig þeir vilji gera það. Með trúverðugum og sjálfstæðum miðlum. Þeir lýsa þar félagslegum skyldum sínum sem fyrirtækis í samfélaginu. Við vitum, eða ættum að vita, að fyrirtæki ekki síður en við borgararnir þiggjum ekki bara réttindi af hálfu samfélagsins. Við berum líka skyldur. Við getum ekki hagað okkur hvernig sem er og ekki bara hugað það eitt að græða peninga án tillits til þess hvernig við gerum það. Fyrirtæki njóta þeirrar uppbyggingar sem samfélagið hefur staðið fyrir. Vegakerfis, fjármálakerfis, lagareglna, öryggis, löggæslu og ekki síst aðgangs að vinnuafli. Jú, þau greiða skatta og opinber gjöld en þau eiga líka að koma vel fram við almenning og það þarf að fá þau til að lýsa þessu yfir. Þau lifa ekki í einhverju tómarúmi heldur í samfélagi. Þetta gerir Orkla group og lýsir því t.d. yfir að það hafi skyldum að gegna í upplýsingamiðlun til almennings. Í þessari yfirlýsing felst ábyrgð og með henni verður til áþreifanleg krafa almennings um að fyrirtækið standi við þessi orð sín. Í annan stað birtir Orkla frelsisyfirlýsingu ritstjóra. Hún fjallar um verksvið þeirra og valdsvið. Hverju þeir ráða og hverju stjórnendurnir ráða. Gagnsemi slíkrar yfirlýsingar er augljós. Í þriðja lagi eru vinnureglur blaðamanna sem byggðar eru á siðareglum blaðamanna. Það er sumsé skilgreint hvað teljist góð og gild blaðamennska. Í fjórða lagi eru siðareglur auglýsingadeildar. Þar er fjallað um þann kínamúr sem á að vera til staðar á milli fréttaflutnings annars vegar, og auglýsingasölu hins vegar. Þar er viðurkennt að hagsmunir þessara tveggja ólíku þátta fjölmiðlunnar eru ólíkir og eiga ekki að skarast. Í fimmta lagi er greint frá því hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða reglur gilda um framkomu stjórnenda við sína undirmenn og svo framvegis. Þetta eykur á gegnsæi fyrirtækisins og tryggir að almenningi sé ljóst hvaða kröfur hann á á hendur fjölmiðlinum og lýsir því lika yfir hvaða skyldur fyrirtækið hefur. Um samfélagslegar skyldur fyrirtækja hefur löngum verið deilt. Einu sinni var það talin sjálfsögð og viðtekin hugsun að fyrirtæki ættu bara að græða peninga. Ég sagði hér í upphafi míns máls að stórfyrirtæki hugsuðu ekki um annað. Það þýðir ekki að mér þyki það slæmt. Mér þykir það mjög gott ef fyrirtæki græða peninga, sérstaklega ef það er fyrirtæki sem ég þigg launin mín hjá. Ég hef upplifað það sjálfur hvað verður um fréttaflutning í fyrirtæki sem tapar peningum og er við það að fara á hausinn. Fréttaflutningurinn verður minni að efnum og gæðum. Þannig að samfélagsleg skylda fyrirtækisins leið fyrir peningaleysið. Önnur fyrirtæki á öðrum sviðum hafa líka tileinkað sér þessa hugsun á síðari árum. Ray nokkur Anderson, sem er stofnandi Interface, sem er ekki fjölmiðlafyrirtæki, það framleiðir teppi, er ákafur talsmaður félagslegrar skyldu fyrirtækja. Hann heldur því fram að fyrirtæki verði að huga að þeim skaða sem þau valda náttúrunni og samfélaginu og finna leiðir til að draga úr honum. Þannig viðhaldi þau getu sinni til starfa og til að uppfylla aðalmarkmiðið sem er, að græða peninga. Clive Crook, sem er ritstjórnarfulltrúi the Economist, segir að það að fyrirtæki sem endurgróðursetji tré sem það t.d. hefur nýtt, komi vel fram við starfsmenn sína og segi alltaf satt og rétt frá afkomu sinni, sé ekki að uppfylla neinar félagslegar skyldur. Þetta sé einfaldlega bara góður rekstur. Klisjan er sumsé sú að til að ganga vel þurfi fyrirtæki að gera vel. Og klisjur eru klisjur vegna þess að margir eru sammála um sannleiksgildi þeirra. Ég held að bandaríski forsetaframbjóðandinn sem ég er óbeint að hafa þetta eftir, hafi tapað kosningunum. Þess vegna man ég ekki hvað hann heitir. Þetta er kannski ekki rétt. En trúið öllu hinu sem ég sagði. Róbert Marshall -marshall@press.is
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar