Dagur hugsar sinn gang

Svo getur farið að landsliðsfyrirliðinn Dagur Sigurðsson leggi landsliðsskóna á hilluna eftir þetta mót. "Dagur sagði að þetta væri þriðja mótið í röð sem hann yrði fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Hann bað um umhugsunartíma núna og framtíð hans með landsliðinu er óljós eins og staðan er í dag," sagði Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari. Viggó sagðist ætla að rífa Dag upp á þessu móti eftir tvö slök mót á undan. Var hann ánægður með frammistöðu Dags á mótinu? "Ef menn horfa á sóknina þá stjórnar Dagur honum og við spilum á köflum glimrandi sóknarleik. Menn sjá oft ekki hans verk því hann skorar oft ekki mikið sjálfur. Hann stjórnar aftur á móti sókninni mjög vel og skilaði því sem ég ætlaðist til af honum. Ég er mjög sáttur við hans frammistöðu á þessu móti," sagði Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari.