Innlent

Breiddi yfir haus eftir íkveikju

Maður á fertugsaldri var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa kveikt í fjölbýlishúsi í Breiðholti í Reykjavík í mars árið 2003. Maðurinn kveikti í geymslum í kjallara fjölbýlishúss sem hann bjó sjálfur í. Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði verið drukkinn og farið að hugsa um seinagang hússtjórnarinnar sem ekki hefði komið því í verk að setja upp reykskynjara, þrátt fyrir íkveikjur í húsinu. "Kvaðst hann hafa ákveðið í ölæði að hrista upp í mönnum vegna þessa. Hann hafi þurft niður í geymslu að sækja kjúkling úr frystikistunni en þegar niður kom hafi hann séð þar á glámbekk brúsa með hættulegum efnum og það valdið honum enn meiri reiði," segir í dómnum. Maðurinn kveðst hafa fengið bakþanka eftir að hafa kveikt eldinn og ætlað að snúa við og slökkva eldinn en hann hafi ekki getað opnað læsingu vegna taugaspennings. Hann hafi því farið upp í íbúðina sína og breitt upp fyrir haus. Hann segist hafa orðið feginn þegar lögreglan handtók hann því honum hafi ekki orðið svefnsamt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×