Erlent

Fólk hætti að nota vafra Microsoft

Öryggisskrifstofa upplýsingatækni í Þýskalandi (Bundesamt für Sicherheit in der Informationstechnik) leggur til að fólk hætti að nota Microsoft Internet Explorer vafrann og noti frekar aðra valkosti. Fyrr á árinu lagði bandarísk stofnun um upplýsingatækniöryggi (US-CERT), sem starfar innan öryggisráðuneytis heimahaga (Department of Homeland Security), það sama til, en á þetta er bent í tilkynningu norska vafrafyrirtækisins Opera Software. Þar er Opera vafranum flaggað sem hentugum valkosti. "Hugbúnaðarveilur er að finna í öllum forritum, en ekki er nokkur vafi á að þétt samtvinnun Microsoft á vafra og stýrikerfi, ásamt því að nota tækni á borð við ActiveX og Visual Basic, dregur úr öryggi allra notenda hugbúnaðar fyrirtækisins," segir Jón S. von Tetzchner, íslenskur forstjóri Opera Software. "Í Opera vafranum finna áhyggjufullir notendur Microsoft betri valkost í stað Internet Explorer og Outlook Express."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×