Innlent

Óþarfa hávaði í stjórninni

"Langmerkasta niðurstaða skýrslunnar er að það er óþarft að setja sérstök lög um hringamyndun. Það hlýtur að teljast merkilegt í ljósi þess hávaða sem hefur verið innan ríkisstjórnarflokkanna um að vondir auðhringir séu að leggja undir sig ekki aðeins fjölmiðla heldur land og miðin," segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar. Össur segir mörg atriði í skýrslunni þannig að þau hefðu allt eins getað verið tekin úr stefnu Samfylkingar. Lagt sé til að hægt verði að skipta upp stórfyrirtækjum sem misnota stórlega aðstöðu sína og að Samkeppnisstofnun fái hvort tveggja auknar fjárheimildir og rýmri heimildir til vettvangsrannsókna. Allt þetta hafi Samfylkingin lagt til. "Stóra hættan kann að vera fólgin í hugmyndum um breytingar á stjórn Samkeppnisstofnunar, skipulagi sem hefur gengið mjög vel," segir Össur. Hann óttast að það verði til að ríkisstjórnin raði gæðingum sínum á stall og dragi úr sjálfstæði stofnunarinnar. Því muni Samfylkingin aldrei taka þátt í.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×