Innlent

Upphlaup hans gamaldags pólitík

Morgunblaðið sakar Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, um "gamaldags pólitík" í leiðara sínum í gær. Þar kemur fram að forsetinn hafi "haldið því fram að frétt á forsíðu Morgunblaðsins á kjördag um breytta hætti varðandi birtingu upplýsinga um fjölda auðra seðla hefði verið eins konar tilkynning til landsmanna að þeir ættu að skila auðu". Morgunblaðið segir fréttamat sitt eðlilegt í ljósi "þeirra vísbendinga sem fram höfðu komið um fjölda auðra seðla" og segir "upphlaup forsetans af þessu tilefni gamaldags pólitík." Þá segir Morgunblaðið í leiðara sínum að fjöldi auðra seðla í forsetakosningunum sé til kominn vegna ákvörðunar forsetans um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar. Bent er á að 28 þúsund Íslendingar hafi mætt á kjörstað til að skila auðu. "Þar var um að ræða ákvörðun, sem hlaut að kalla fram alvarlega andstöðu við forsetann, og það hefur nú verið staðfest í þessum forsetakosningum með afgerandi hætti," segir í leiðaranum. Morgunblaðið gagnrýnir túlkun forsetans á niðurstöðum kosninganna er hann segist hafa fengið 85 % gildra atkvæða. Blaðið segir úrslitin "erfið fyrir forsetann" en hann hafi gert illt verra með viðbrögðum sínum "sem hafi ekki verið í neinu samræmi við veruleikann". Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vildi ekki tjá sig um málið þegar Fréttablaðið hafði samband við hann í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×