Innlent

Stjórnarskrárbrot að leggja hömlur

Varaformaður Samfylkingarinnar segir að það sé stjórnarskrárbrot að leggja hömlur á þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin. Þingflokksformaður Vinstri grænna tekur undir það og segir skýrslu hinna vísu manna aðeins innlegg í umræðuna en engan endanlegan dóm. Í skýrslu nefndar hinna vísu manna er meðal annars sett fram hugmynd um að gera megi þá kröfu að 25-44% allra atkvæðisbærra manna greiði atkvæði gegn lögum um eignarhald á fjölmiðlum. Í skýrslunni er samt sem áður lagt til að farið verði hóflega í allar kröfur um þátttöku til að hámarka líkur á að slíkt standist stjórnarskrá. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir ekki rétt að gera neinar lágmarkskröfur um þátttöku þar sem hætt sé við að slíkt brjóti í bága við stjórnarskrá. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, og Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, taka í sama streng. Þau segja skýrsluna fyrst og fremst vera almennt innlegg í umræðuna en ekki felist í henni neinn endanlegur dómur. Ögmundur segir skýrsluna ekki geta þjónað sem grundvöll fyrir lagabreytingar á þinginu sem kallað verður saman í byrjun júlí og hann trúir því ekki að Alþingi láti bjóða sér slík vinnubrögð. Margrét telur þetta örþrifaráð manna sem óttist vantraustsyfirlýsingu sem þeir kunni að fá á sig í væntanlegri þjóðaratkvæðgreiðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×