Skoðun

Ekki 75%-skil­yrði 1944

Þjóðaratkvæðagreiðslan - Mörður Árnason Því hefur verið haldið fram, nú síðast í Viðskiptablaðinu, að lýðveldisatkvæðagreiðslan vorið 1944 hafi farið fram með skilyrðum um 75% kjörsókn. Þetta er rangt. Atkvæðagreiðslan, sem var bindandi, fór fram án skilyrða um kjörsókn. Aðeins var krafist einfalds meirihluta þeirra sem kusu. Sem kunnugt er svaraði þjóðin þá játandi merkilegustu spurningu 20. aldar á Íslandi: Átti að slíta tengslin við Danmörku og stofna Lýðveldið Ísland? Misskilningurinn sprettur sjálfsagt af því að í samningunum um fullveldið 1918 tókst Dönum að ná því inn að ekki væri hægt að segja upp samningnum nema með samþykki minnst ¾ kjósenda í atkvæðagreiðslu þar sem minnst ¾ atkvæðisbærra manna neyttu atkvæðisréttarins. Í ársbyrjun 1944 var hinsvegar ákveðið með ýmsum rökum að atkvæðagreiðslan yrði óháð þessum uppsagnarákvæðum. Lögskilnaðarmenn svokallaðir vildu virða ákvæðin en mikill meirihluti stóð á móti á þingi. Stjórnmálaflokkarnir bundust að lokum samtökum um að stuðla að sem allra mestri þátttöku, meðal annars til að ekki yrðu bornar brigður á hana í ljósi þessara ákvæða sambandslaganna, og til samkomulags var ákveðið að láta þessi ákvæði "liggja milli hluta". Í ályktun þingsins er ekkert á skilyrði minnst. Þetta má allt sjá í Alþingistíðindum frá 1944 (þingskjal 246, sjá einnig þskj. 70; umræður 14. og 18.–20. janúar). Þjóðaratkvæðagreiðslan í maí 1944 var því haldin án formlegra skilyrða um kjörsókn eða meirihluta, á sama hátt um atkvæðagreiðslan um sambandslögin 1918. Það á raunar við um allar þjóðaratkvæðagreiðslurnar fimm sem fram hafa farið á Íslandi síðan 1908.




Skoðun

Sjá meira


×