Bílar

Tíu verstu fyrir bílinn

Að fara með bílinn í smurningu er leiðinlegt og tímafrekt. Í raun eru öll lítil og stór viðvik varðandi viðhald á bílnum þreytandi og í þau fer tími sem nota mætti til annarra skemmtilegri hluta. En það eru einmitt þessi smáu atriði sem gætu kostað þig ógnarmikið seinna meir ef þú sinnir þeim ekki. Nýleg könnun sem gerð var meðal sérfræðinga á bílaverkstæðum sýnir 10 algengustu atriði sem orðið gætu að miklum fjárútlátum seinna meir. Þau sjást hér í engri sérstakri röð. Ekki sinna tímasettum viðhaldsskoðunum Leiða hjá sér vélarviðvörunarljós í mælaborði Sinna ekki olíuskiptum á ráðlögðum fresti Skoða aldrei þrýsting í dekkjum Skipta ekki um olíu á skiptingu, bremsuvökva og kælivökva Halda áfram akstri við yfirhitnun vélar Skipta ekki um loftsíur og olíusíur Láta ófaglærða sjá um viðhald bílsins Nota ekki “original” varahluti Að reyna að sinna viðhaldi sjálfur ef þekking er ekki til staðar

Bílar

Blendingur frá Suzuki í Genf

Nú styttist í bílasýninguna í Genf og bílaframleiðendurnir keppast við að greina umheimininum frá því hvaða nýja eða breytta bíla þeir muni sýna þar. Suzuki er einn þeirra og mun þar frumsýna glænýjan bíl í C-stærðarflokki, en sýningin er haldin dagana 5. til 17. mars. Nýi bíllinn er svonefndur blendingur þar sem saman fara stíleinkenni og notkunarmöguleikar fólksbíls, jepplings og fjölnotabíls. Bíllinn byggir á S-Cross hugmyndabílnum sem Suzuki frumsýndi á bílasýningunni í París í september í fyrra. Suzuki hefur ekki látið mikið efni fara frá sér um nýja bílinn en sendi þó nýlega frá sér myndir sem sýna viss hönnunaratriði hans. Fyrirtækið segir að nýi bíllinn státi af miklu innanrými og einu mesta farangursrými í flokki blendinga. Þá búi bíllinn yfir yfirburða fjölhæfni í notkun. Suzuki hefur lengi þótt standa framarlega þegar kemur að fjórhjóladrifstækni og verður þessi nýi bíll fjórhjóladrifinn sem ætti fyrir vikið að bæta aksturseiginleika hans. Á Genfarsýningunni mun Suzuki einnig sýna smábílana Alto og Splash sem og Swift og aldrifsbílana SX4, Jimny og Grand Vitara.

Bílar

Biðin kostar 104.000 kr. árlega

Flestar borgir í Bandaríkjunum eru þéttsetnar bílaumferð og almenningur eyðir miklum tíma og fjármunum í bið til að komast leiðar sinnar. En hvað skildi það kosta meðalmanninn? Umferðarstofnunin A&M í Texas hefur reiknað þetta út og komist að því að sá kostnaður nemur að meðaltali 818 dollurum á ári fyrir hvern ökumann, eða 104.000 krónum. Er þá bæði eldsneytiskostnaður og tapaður tími innifalinn. Auk þess hlýst af þessu gríðarmikil mengun. Af öllum borgum Bandaríkjanna er ástandið verst í Washington. Þar tekur það um 3 klukkutíma að komast leið sem tæki 30 mínútur ef engin væri umferðin. Pensacola í Flórída er best borga hvað þetta varðar og þar þurfa ökumenn ekki að eyða nema 39 mínútum í sama ökutúr, eða aðeins 9 mínútum í bið. Að meðaltali tekur Bandaríkjamann 1,5 klukkutíma að komast leið sem tæki 30 mínútur í engri umferð. Við alla þessa bið eyða Bandaríkjamenn 5,5 milljörðum klukkustunda á ári og 121 milljarði dollara. A&M stofnunin hefur safnað umferðargögnum í 30 og vinnur að því að minnka þennan tíma og leysa umferðarhnúta um allt landið. Á eftir höfuðborginni Washington er ástandið verst í borgunum Los Angeles, San Francisco, New York, Boston, Houston, Atlanta, Chicago, Philadelphia og Seattle. Bandaríkjamenn eyða 11 milljörðum lítra af eldsneyti fastir í umferðinni. Það er því til mikils að vinna að greiða fyrir umferð í landi bílanna.

Bílar

Nýr keppnisbíll MacLaren

McLaren kynnti í síðustu viku nýjan Formúlu 1 keppnisbíl sinn sem þeir kalla MP4-28. Athygli vekur að bíllinn er svo til alveg eins í útliti og síðasti bíll og málaður alveg eins. En undir yfirborðinu leynast ýmsar breytingar og þrátt fyrir að síðasti bíll sé núverandi sigurvegari í Formúlu 1 eru breytingarnar miklar og metnaðarfullar. Fjöðrunin að framan er “pull-rod”-gerðar eins og í keppnisbíl Ferrari, en öndvert við síðasta bíl MacLaren. Hliðar bílsins og botn hafa breyst nokkuð. MacLaren vonar að breyting verði á því, frá síðasta keppnistímabili, að fyrirtækið eigi hraðskreiðasta bílinn í upphafi og enda þess, en eigi svo fullt í fangi við að halda í keppinautana þar á milli. Nú sé komið að því að bíll þeirra sé sá besti allt keppnistímabilið. Það gæti þýtt enn meiri breytingar á bílnum á keppnistímabilinu. Ökumenn MacLaren á næsta keppnistímabili verða Jenson Button, sem leiðir liðið eftir brotthvarf Lewis Hamilton sem fór til Mercedes og Sergio Perez sem var áður hjá Sauber liðinu.

Bílar

Vin Diesel á Dodge Charger Daytona í Fast And The Furious

Það verður ekki bara ofursprækur Nissan GT-R bíll sem fær hlutverk í næstu Fast And The Furious kvikmynd, sem verður sú sjötta í röðinni, heldur mun Van Diesel spretta um göturnar á Dodge Charger Daytona bíl í myndinni. Það er afar viðeigandi í ljósi fyrri mynda, því Vin Diesel hefur oft ekið á bandaríksum kraftabílum í myndunum. Þessi nýja mynd kemur til sýninga í maí á þessu ári og bíða verður sýninga á henni til að sjá hvort hann verður búinn nitro-búnaði til að auka afl hans eða hvaða aðrar breytingar verða gerðar á honum til að halda í við þá breyttu japönsku ofurbíla sem hann ávallt er að kljást við í Fast And The Furious myndunum.

Bílar

Ferrari og Maserati vélar í Alfa Romeo

Fiat er svo umhugað að koma Alfa Romeo aftur á kortið að það ætlar að fá Ferrari og Maserati við að aðstoða Alfa Romeo við vélasmíði í nýja bíla sína. Þessi fyrirtæki tilheyra öll Fiat samstæðunni. Fiat ætlar að setja Guilia bílinn og tveggja sæta "roadster" sportbíl á markað á næsta ári í viðbót við Alfa Romeo 4C sportbíl sem lengri bið verður eftir. Bætast þessir bílar við fyrri gerðirnar MiTO og Guilietta. Sergio Marchionne forstjóri Fiat hefur látið hafa eftir sér að stærsta vandamál Alfa Romeo sé að framleiða vélar sem eru þess verðar að vera í bílum með merki Alfa Romeo.

Bílar

Mercedes Benz kaupir 12% í kínversku bílafyrirtæki

Í síðustu viku keypti Daimler AG, móðurfélag Mercedes Benz 12% hlut í Bejing Automotive Group (BAIC) fyrir 111 milljarða króna og fær með því tvo menn í stjórn þess. Kaup þess eru liður í þeim áformum Mercedes að ná keppinautum sínum á lúxusbílamarkaði aftur, það er BMW og Audi. Það hefur sviðið mjög hjá Daimler að Mercedes hafi tapað á síðustu árum forystunni í sölu á lúxusbílum, en BMW tók framúr þeim í magni árið 2005 og Audi árið 2011. Því ætlar Mercedes að breyta og ná aftur forystunni fyrir enda þessa áratugar. Þessi nýju kaup eiga að tryggja betri aðgang að kínverskum bílamarkaði fyrir bæði Mercedes og BAIC og að auðveldara verði fyrir þau bæði að keppa á þeim vaxandi markaði. Tapaði forystunni í lúxusbílasölu Í Kína seldi Audi 406 þúsund bíla í fyrra og jók söluna um 30% milli ára á meðan Mercedes jók hana aðeins um 1,5% og náði 196 þúsund bíla sölu þar. BMW náði hinsvegar mestri aukningu, 40% og seldi 303 þúsund bíla. Því eru blikur á lofti fyrir Mercedes Benz á þessum mikilvæga markaði og ljóst að eitthvað róttækt varð að gera. Í hinum hrynjandi markaði í Evrópu eru vaxtatækifærin helst á nýmörkuðum og þar spilar Kína stærstan þátt. BAIC á meirihlutann í Bejing Benz Automotive Co. verksmiðjunni í Peking sem framleiðir Mercedes C- og E-class bíla og GLK jeppann. BAIC framleiðir einnig bíla í Kína fyrir Hyundai. Daimler og BAIC hafa einnig bundist samstarfi um söluumboð sín í Kína og sameina nú sjálfstæð umboð hvers um sig.

Bílar

Fersk kynslóðarbreyting á Honda CR-V

Einn alvinsælasti jepplingur síðustu ára á Íslandi er Honda CR-V. Það sem meira er, hann er langvinsælasti jepplingur í Bandaríkjunum og slær léttilega við heimabílunum Ford Escape og jeppanum Ford Explorer og seldist í meira en 300.000 eintökum á síðasta ári. Hann er þekktur fyrir áreiðanleika og fátíðar bilanir og endist von úr viti. Svo vel hefur hann endst hér á landi að 98% allra CR-V bíla sem selst hafa frá upphafi sölu hans eru enn á götunum. Það er því greinilega nokkuð varið í þennan bíl og svo var reyndar raunin er honum var reynsluekið á dögunum. Var þar um að ræða nýja kynslóð bílsins af árgerð 2013. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á bílnum og allar til að gera góðan bíl betri. Virkar stærri en forverinn en er minni Í fyrsta lagi er bíllinn fallegri að utan, en fyrri kynslóð hans var orðin nokkuð á eftir og breytingar því tímabærar. Hann er allur rennilegri og greinilega hefur verið unnið ríkulega í loftflæði hans, allt til að minnka eyðslu bílsins. Honda hefur þó ekki dottið í þann pitt að gera hann svo sportlegan að minnka gluggalínu hans, eins og og við svo marga nýja bíla í dag. Það verður gjarnan til þess að útsýni úr bílnum, sérstaklega úr aftursætum, skerðist mjög. Annar pittur sem Honda féll ekki í var að gera bílinn stærri, heldur þvert á móti er bíllinn aðeins minni þó að útlitið bendi til þess þveröfuga. Vel útfærð verkfræðileg hönnun hans innanborðs hefur hinsvegar gert það að verkum að hann er rýmri en forverinn og á það við um öll mál hans. Meira rými fyrir ökumann sem og aftursætisfarþega auk hins flata gólfs í afturhluta bílsins skapar góða rýmistilfinningu. Eftirtektarvert er gott fótarými afturí. Skottrými er yfrið og ætti að duga flestum til ferðalaga. Í dýrustu Executive útgáfu bílsins kemur hann með gullfallegum leðursætum og ýmislegt annað góðgæti fylgir þá með eins og rafstýrt ökumannssæti, glerþak, rafstýrður afturhleri og lyklalaust aðgengi og ræsing. Fín innrétting en of mikil notkun ódýrari gerðar plasts Geymslurými öll eru til fyrirmyndar og í miðjustokki eru gríðarlega rúmmiklar geymslur og geta hæglega látið kvenmannsveski hverfa. Ekki er skortur á glasahöldurum. Fimm tommu upplýsingaskjár gefur mælaborðinu snaggaralegan svip þó stærri skjáir prýði margan bílinn í dag. Á skjánum má stýran öllum fjáranum í bílnum og á honum birtist útsýni bakkmyndavélar ef sett er í bakkgír. Hitastýrð miðstöð er vel þegin breyting á bílnum. Mælaborðið er einfalt en skiljanlegt og allt til staðar sem þarf. Allar mögulegar tengingar eru í bílnum og ekki er ónýtt að geta stýrt lagavali gegnum iPhone. Það eina sem hægt er að setja út á innréttinguna er notkun á því er virðist ódýrari gerð plasts, sem setur hann aðeins niður í samanburði við margan annan nýjan bílinn í dag. Allt er þetta þó greinilega vel smíðað eins og við mátti búast hjá Honda. Í bílinn má fá radartengdan skriðstilli, akreinaaðstoð og árekstrarviðvörunarkerfi, en fjarlægðarkynjarar framan og aftan er staðalbúnaður. Kostar frá 6,0 til 7,9 milljónum Fá má CR-V með 2,0 lítra og 150 hestafla bensínvél eða 2,2 lítra og 155 hestafla dísilvél. Báðar eru þær þýðgengar og öflugar vélar en eyðslan með dísilvélinni er umtalsvert lægri. Á móti kemur að bensínbíllinn er talsvert ódýrari sem munar 900 þúsund krónum. Bensínbíllin má aðeins fá sjálfskiptan en dísilbílinn bæði bein- og sjálfskiptan. Ef keyptur er dísilbíll með beinskiptingu munar ekki nema 100 þúsund krónum á honum og bensínbílnum. Eyðsla beinskipts bíls er að auki einum lítra minni í blönduðum akstri, ekki nem 5,6 lítrar á hundraðið. Geri aðrir jepplingar betur. Ódýrast bíllinn er sjálfskiptur bensínbíll á 5.990.000 kr. Dýrasta útgáfa hans er sjálfskiptur dísilbíll í Executive útgáfu, á 7.890.000 kr. Akstur Honda CR-V er einkar ljúfur, fjöðrun til fyrirmyndar og bíllinn er allur stífur og góður. Ekki ber mikið á hliðarhalla er lagt er á hann, stöðugleiki á vegi veitir fína öryggistilfinningu. Það sem helst má setja út á aksturánægjuna er ný rafræn stýring sem stelur aðeins tilfinningu fyrir vegi og minnkar skemmtanagildið við aksturinn. Þegar allt er tekið saman er Honda CR-V ferlega fínn bíll sem skorar hátt á flestum sviðum. Hann hefur ávallt verið góð kaup og búast má við að hann endist gríðarlega vel eins og forverar hans. Endursöluverð er alltof gott á þessum bíl og oftar en ekki er slegist um þá, þá sjaldan að fólk vill selja þá. Hann er á fínu verði sem fyrr og ætti sem áður að seljast vel hér, enda heppilegur við íslenskar aðstæður. Kostir Frábært rými Góð tilfinning fyrir smíðagæðum Mikið útsýni úr bílnum Gallar Full einföld innrétting og notkun ódýrs plasts Rafræn stýring dregur úr tilfinningu í akstri

Bílar

Draumasamkoma mótorhjólamannsins

Daytona Bikeweek er 10 daga samkoma mótorhjólaáhugamanna sem haldin var fyrst árið 1937 á Daytona Beach í Florida. Hafsteinn Emilsson er öllum hnútum kunnugur í Daytona enda hefur hann ekki misst af Bikeweek frá 1996 og er því að fara núna í 18. skiptið í röð. Hafsteinn segir að þessar ferðir hafi verið mjög vinsælar hjá Íslendingum og þeir hafa fjölmennt þangað í áraröð. Fjöldinn er æði misjafn, allt frá 12 og uppí 45 manns, en í fyrra voru þeir 28 talsins og það stefnir í svipaðan fjölda í ár. Þátttakendur eru konur jafnt sem kallar og á aldrinum frá 18 til 82 ára, en allir með sama áhugamálið, mótorhjól. Þátttakendur hafa bæði valið sér að fara á eigin vegum eða nýta sér skipulagða ferð þar sem flugið, gistingin og farastjórn er innifalin og eru þeir reyndar fleiri. Síðustu 10 árin hefur Icelandair boðið upp á sérferðir á Daytona Bikeweek undir fararstjórn Hafsteins. Eftir Bikeweek dagana efnir Hafsteinn ávallt til tveggja daga hjólaferðar um Florída á Harley Davidson hjólum og er þá farið mest um sveitir í miðfylkinu þar sem umferð er lítil og fallegir smábæir. Þá er íslenski fáninn alltaf á hjólunum og það hefur oft komið fyrir að við erum stoppuð af Íslendingum sem búsettir eru í Flórída eða fyrrverandi hermönnum sem voru á Íslandi sem spyrja okkur hvort við séum frá Keflavík, eða Reykjavík. Þeir vilja síðan allt fyrir okkur gera. Daytona Bikeweek er ein stærstu mótorhjólasamkomu og sýning á heimsvísu, eins og allt sem amerískt er. Á Bikeweek koma saman um sex hundruð þúsund mótorhjólaáhugamenn árlega. Hver sá sem framleiðir eitthvað tengt mótorhjólum, lætur sig ekki vanta með sýningarbás þar, hvort sem um er að ræða mótorhjól, aukahluti fyrir mótorhjól, mótorhjólafatnað, smurolíur, hnakka, spegla, gleraugu eða hvers konar fylgihluti. Allar tegundir af hjólum er að finna til sýnis og sölu, torfæruhjól, þríhjól, hippahjól og kappaksturshjól. Í fyrra keyptu tveir Íslendingar mótorhjól á sýningunni, svo ferðin er stundum ekki bara farin til að svala forvitninni, heldur með kaup í huga. Daytona er álíka fjölmenn og Reykjavík og í annarri viku marsmánaðar ár hvert fyllist bærinn af mótorhjólum og hjólafólki. Vinsælt er t.d að rölta niður aðalgötu bæjarins, "Main Street“ þar sem sölubásar eru við hvert fótmál og sýningar á hverju götuhorni. Síðustu ár hefur ásókn seljenda verið svo mikil að sýningar og sölubásar hafa verið settir upp í nærliggandi bæjum eins og Ormond Beach. Þar er líka að finna mótorhjólaverslunina Bruce Rossmeyer Harley Davidson sem er stærsta Harley verslun og umboð í heimi. J & P eru þar við hliðina er með alla hugsanlega aukahluti fyrir mótorhjól og allan hlífðarfatnað. Það er einnig keppt á mótorhjólum í Daytona og ýmsar keppnir fara fram þá 10 daga sem Bikeweek stendur yfir. Eru þær flestar haldnar á International Speedway kappakstursbrautinni í Daytona. Þar má sjá Motorcross og Super Race keppnir flesta daga. Við Speedway er stór markaður með notuð hjól og varahluti í gömul hjól. Þar er bæði gaman og fróðlegt að skoða og tala við þá sem þar eru með sölubása. Hafsteinn segir að enn séu laus sæti í ferðina á Daytona Bikeweek, sem er 8 daga ferð og kostar 153 þúsund krónur með öllu

Bílar

Hverjir keppa um titilinn Bíll ársins?

Á bílasýningunni í New York í lok mars verður lýst kjöri á Bíl ársins 2013. Það eru 66 þekktir bílablaðamenn um allan heim sem kjósa þann bíl, en nú er komið í ljós hvaða 10 bílar það eru sem koma til greina í kjörinu. Það eru Audi A3, Range Rover, Mazda6, Mazda CX-5, Mercedes-Benz A-Class, Peugeot 208, Porsche Boxster/Cayman, Subaru BRZ/Toyota GT86, Volkswagen Golf og Volvo V40. Það vekur sérstaka athygli að enginn bandarískur bíll er þarna á meðal þó verðlaunin verði afhent í New York. Mörgum bílablaðamönnum kemur það reyndar ekki mikið á óvart. Þýskir og japanskir bílar eru áberandi á listanum, 4 þeirra eru frá Þýskalandi og 3 frá Japan. Eldri sigurvegarar Fyrri sigurvegarar í þessu kjöri hafa verið Volkswagen up! árið 2012, Nissan LEAF árið 2011, Volkswagen Polo 2010, Volkswagen Golf 2009, Mazda2 2008, Lexus LS 460 2007, BMW 3-línan 2006 og Audi A6 fyrir árið 2005. Aftur eru þýskir bílar mjög áberandi, eiga 5 af þeim 8 bílum sem hlotið hafa þennan titil hingað til. Ætli það verði 6 af 9 eftir kjörið í mars? Greint verður frá hvaða bílar hafa náð þremur efstu sætunum í kjörinu á bílasýningunni í Genf þann 5. mars en krýning á Bíl ársins bíður New York bílasýningarinnar þann 27. mars. Sportbíll ársins Það er ekki minni spenna fyrir kjöri á sportbíl ársins við sama tækifæri. Þar keppa um hituna bílarnir Aston Martin Vanquish, Audi RS5, BMW M6, BMW M 135i, Ferrari F12 Berlinetta, Mercedes-Benz SL63 AMG og Mercedes Benz SLS AMG, Porsche Boxster/Cayman, Renault Clio Sport og Subaru BRZ/Toyota GT86. Í þessum flokki bíla eiga 6 þýskir bílar fulltrúa af þeim 10 sem til greina koma. Fyrri sigurvegarar í þessum flokki hafa verið Porsche 911 fyrir árið 2012, Ferrari 458 Italia fyrir 2011, Audi R8 V10 2010, Nissan GT-R 2009, Audi R8 2008, Audi RS4 2007 og Porsche Cayman S fyrir árið 2006, en þá fyrst fór kjör fram í þessum flokki. Myndskeiðið hér að ofan sýnir hvaða 10 bílar komust í úrslit í fyrra.

Bílar