Íslenski boltinn

Sjáðu markið sem gerði KR-inga brjálaða | Myndband

Stjarnan komst í undanúrslit Borgunarbikars karla í fótbolta í gærkvöldi með dramatískum 3-2 sigri á KR í frábærum leik. Guðjón Baldvinsson skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Fyrsta mark leiksins vakti mikla athygli og einnig mikla reiði hjá KR-ingum. Það skoraði Hilmar Árni Halldórsson á fyrstu mínútu leiksins eftir skrautlega upphafsspyrnu.

Stjarnan tók miðju og þrír leikmenn liðsins; Hólmbert Aron Friðjónsson, Guðjón Baldvinsson og Baldur Sigurðsson, þjófstörtuðu allhressilega og þutu fram vallarhelming KR. Miðjuna þurfti að taka aftur.

Þegar hún var tekin aftur voru Guðjón og Hólmbert komnir til baka en Baldur var á miðjum vallarhelmingi KR sem er að sjálfsögðu bannað.

Stjarnan sparkaði boltanum langt fram þar sem Hólmbert fór upp í skallabolta og vann innkast. Hann átti svo skot eftir langt innkast frá Jóhanni Laxdal sem fór í Aron Bjarka Jósepsson en það barst boltinn til Hilmars Árna sem skoraði.

Baldur kom því aldrei við boltann en það breytir því ekki að hann átti vitaskuld ekki að standa langt inn á vallarhelmingi KR þegar miðjan var tekin.

„Það er mér algjörlega óskiljanlegt. Þorvaldur ákveður að stoppa en þeir komu ekkert til baka. Það er óskiljanlegt að dómarinn hafi leyft þetta. Þeir fengu mark á silfurfati,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, við Vísi um markið eftir leik.

Farið verður nánar yfir þetta atvik og leikinn sjálfan í Borgunarbikarmörkunum sem eru á dagskrá Stöð 2 Sport klukkan 22.00 í kvöld.

Hér að ofan má sjá þetta umdeilda mark.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×