Körfubolti

Hlynur til Stjörnunnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hlynur í góðum félagsskap á EM í fyrra.
Hlynur í góðum félagsskap á EM í fyrra. vísir/valli
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, mun leika með Stjörnunni í Domino's deild karla á komandi tímabili.

Þetta staðfesti Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Kjartan Atla Kjartansson í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hlynur verður formlega kynntur til leiks hjá Stjörnunni seinna í kvöld.

Hlynur hefur undanfarin sex ár leikið sem atvinnumaður með Sundsvall Dragons í Svíþjóð. Félagið varð hins vegar gjaldþrota í vor og Hlynur þurfti þá að finna sér nýja vinnuveitendur.

Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikill styrkur þetta er fyrir Stjörnuna en Hlynur er þrautreyndur og öflugur á báðum endum vallarins.

Stjarnan endaði í 2. sæti Domino's deildarinnar í fyrra en féll úr leik fyrir Njarðvík í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Hlynur og félagar í Snæfelli fagna Íslandsmeistaratitlinum 2010 eftir sigur á Keflavík í oddaleik.vísir/daníel
Hlynur, sem er 34 ára, lék með Snæfelli áður en hann fór til Svíþjóðar og varð tvöfaldur meistari með Hólmurum tímabilið 2009-10. Tímabilið á eftir varð hann svo sænskur meistari með Sundsvall.

Hlynur hóf feril sinn í meistaraflokki með Skallagrími í Borgarnesi en gekk til liðs við Snæfell 2002.

Hlynur hefur verið fyrirliði íslenska landsliðsins undanfarin ár en hann leikur sinn 98. landsleik í kvöld þegar Ísland mætir Sviss í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2017.

Hægt er að fylgjast með beinni textalýsingu frá leik Íslands og Sviss með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×