Fjölnismenn eru með 33 stig í 5. sæti og það sem meira er, þá er möguleikinn á Evrópusæti enn fyrir hendi en Fjölnir er aðeins þremur stigum frá KR, sem situr í 3. sætinu, þegar tvær umferðir eru eftir. Fjölnismenn eiga reyndar eftir að spila við tvö efstu lið deildarinnar, FH og Breiðablik, en þrátt fyrir það hafa Grafarvogsbúar trú á verkefninu.
„Við erum í þessu til að vinna en verkefnið er ærið, að fara í Krikann og ætla að gera einhverja stóra hluti. En það er allt hægt í þessu,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, í samtali við Fréttablaðið í gær.
Miðað við gengi Fjölnis á undanförnum vikum er ástæða til bjartsýni. Fjölnismenn eru ósigraðir í síðustu átta leikjum sínum, hafa unnið fjóra þeirra og gert fjögur jafntefli. Vörn Fjölnismanna er reyndar ekki jafn sterk og í upphafi móts en sóknarleikurinn er það góður að það hefur engu breytt.
Tuttugu mörk skoruð í síðustu átta leikjum gefa til kynna hversu beittur sóknarleikurinn er. Kennie Chopart hefur skorað fimm þessara marka en þessi öflugi Dani hefur farið fyrir þessari þriðju útgáfu Fjölnisliðsins í sumar. Lið Fjölnis í dag er nefnilega talsvert breytt frá því sem hóf mótið.

Þar náði Ágúst í Chopart, sem spilaði vel með Stjörnunni árin 2012 og 2013, og spænska miðvörðinn Jonathan Neftali, auk þess sem Illugi Þór Gunnarsson byrjaði aftur að æfa með liðinu. Þessi andlitslyfting leit reyndar ekki vel út í upphafi en Fjölnir steinlá, 4-0, fyrir ÍBV í fyrsta leiknum sem Chopart og Neftali spiluðu. En þessir leikmenn þurftu bara einn leik í aðlögun og eftir þennan skell hafa Fjölnismenn verið á mikilli siglingu og halað inn 16 stig í síðustu átta leikjum.
„Það er dálítið erfitt að setja fingur á það sem hefur breyst til batnaðar hjá okkur. Það eru eiginlega leikmennirnir sem eiga stærstan þátt í þessu. Þetta er mjög góður hópur,“ sagði Ágúst sem viðurkennir að það hafi ekki verið óskastaða að þurfa að byggja upp nýtt lið um mitt mót.
„Þetta var dálítil endurskipulagning. Það komst rót á þetta og það tók smá tíma að koma þessu í samt lag aftur. Við töpuðum fjórum leikjum í röð og það er ákveðin kúnst að snúa því við,“ sagði Ágúst sem hlakkar til leiksins í dag. „Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik, að mæta á erfiðasta útivöll landsins og ná í úrslit.“
