CS Nostalgían - Drake og MurK mætast í Dust

Vísir og Andri Freyr Ríkarðsson sýna að þessu sinni viðureign Drake og MurK í kortinu Dust. Því miður getum við einungis sýnt frá fyrri hálfleik þar sem sá síðari er ekki til á lager. Keppt var í efstu deild netmótsins Thursinn í byrjun ársins 2003, en mótið var einskonar Ljósleiðaradeild þess tíma. Nettengingarnar voru ekki upp á marga fiska í byrjun aldar. Leikmennirnir “lagga” eða hökta inn á milli og t.a.m dettur leikmaðurinn TurboDrake í stutta stund út af leikjaþjóni í 9. lotu. Að öðru leyti var þetta árið sem liðsmenn MurK gengu allir undir skírnarnöfnum sínum og fóru m.a. til Dallas í Bandaríkjunum að spila á hinu víðfræga CPL-móti. Þetta var í raun afdrifaríkt ár fyrir bæði lið því leikmennirnir Zombie og blibb færðu sig yfir til Drake frá MurK undir lok ársins. Ætlaði allt um koll að keyra í CS samfélaginu á Íslandi í kjölfar þeirra tíðinda. Miklar umræður mynduðust á Hugi.is og fyrirliði MurK-liðsins gaf m.a. út yfirlýsingu þar sem hann beindi spjótum sínum að umræddum leikmönnum. Liðsmenn Drake: shock, Some0ne, TurboDrake, WarDrake, ZeroXool. Liðsmenn MurK: Gunnar (Gambler), ingolfur (blibb), johann (Zombie), Johannes (knifah), Kristjan (Krissi).

571
15:26

Vinsælt í flokknum Rafíþróttir