Handbolti

„Þetta svíður en við gáfum þeim al­vöru leik“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Snorri Steinn einbeittur á hliðarlínunni
Snorri Steinn einbeittur á hliðarlínunni Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson var sársvekktur eftir 31-28 tap Íslands gegn Danmörku í undanúrslitaleik EM í handbolta. Hann segist samt ekki hafa getað beðið um mikið meira frá strákunum, litlu hlutirnir féllu bara ekki með þeim.

Var þetta sanngjörn niðurstaða? spurði Valur Páll Eiríksson.

„Já. Við töpuðum örugglega fyrir betra liði í dag, við vorum að tapa gegn besta liði heims. Þetta svíður en við gáfum þeim alvöru leik. Ég gat ekki beðið um mikið meira frá mínum mönnum í dag.“

Danir keyra yfirleitt alltaf hraða miðju og yfir höfuð spila þeir bara mjög hraðan leik, sem er erfitt að eiga við varnarlega, en Snorra þótti það takast nokkuð vel.

„Fyrstu viðbrögð er að mér fannst það heppnast vel, það er bara alveg gríðarlega erfitt að eiga við þá. Þetta er linnulaust hjá þeim allan tímann en mér fannst við halda þeim vel niðri. Við glímdum ágætlega við þá en þetta er gott lið sem gerði vel. Það eru litlir hlutir hér og þar sem hefðu mátt falla okkar megin en gerðu það ekki í dag.“

Skilaboðin sem hann muna senda strákunum okkar inni í klefa eftir leikinn eru skýr. Snorri mun svo sjá til þess að bronsið skili sér á sunnudaginn.

„Ég mun hrósa þeim. Þeir eru búnir að vera frábærir, lögðu líf og sál í þennan leik. Þetta svíður en við munum rífa okkur í gang, það er mitt að sjá til þess að það gerist.“

„Risastór leikur. Verðlaun í húfi og við mætum klárir“ sagði Snorri að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×