Handbolti

Al­gjör­lega magnaður árangur: „Á­kveðin von­brigði að þeir séu ekki fjórir“

Aron Guðmundsson skrifar
Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands og Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króatíu, samankomnir í Herning í Danmörku þar sem að undanúrslitin á Evrópumóti karla í handbolta fara fram í dag.
Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands, Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari Íslands og Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króatíu, samankomnir í Herning í Danmörku þar sem að undanúrslitin á Evrópumóti karla í handbolta fara fram í dag. Vísir/Vilhelm

Það að þrír ís­lenskir þjálfarar og ís­lenska lands­liðið taki þátt í undanúr­slitum EM í hand­bolta er ekkert minna en stór­kost­legt að mati Einars Jóns­sonar, hand­boltasér­fræðings og þjálfara og viður­kenning fyrir það góða starf sem unnið sé hér á landi.

„Það eru ákveðin vonbrigði að þeir séu ekki fjórir,“ segir Einar kíminn um þessa ótrúlegu staðreynd. Sjálfur er hann þjálfari innan handboltahreyfingarinnar hér á landi hjá ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum Fram.

„Þetta er stórkostlegt, að við séum með lið þarna og þrjá þjálfara, algjörlega magnað. Þetta er ágætis viðurkenning og speglar það bara hvað við erum að gera frábæra hluti hér á Íslandi í handbolta. Þetta er góð viðurkenning á því. Maður gleðst yfir þessu og er stoltur yfir því að tilheyra þessari hreyfingu. Jú þetta blæs manni byr í brjósti. Þetta er ótrúlegt afrek. Það verður bara að segjast alveg eins og er.“

Alfreð er að fara með þýska landsliðið í undanúrslit á öðru Evrópumótinu í röð en liðið endaði í fjórða sætinu fyrir tveimur árum. Liðið fór alla leið í úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í París seinna sama ár en varð að sætta sig við silfrið.

Dagur er að fara með króatíska liðið í undanúrslit á öðru stórmótinu í röð því liðið endaði í öðru sæti á síðasta heimsmeistaramóti.

Það er þegar ljóst að íslenskir þjálfarar vinna að minnsta kosti tvenn verðlaun á þessu Evrópumóti og Dagur á nú möguleika á að gera aðra þjóð að Evrópumeisturum því þýska landsliðið varð Evrópumeistari undir hans stjórn árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×