Erlent

Trump vill hafa Pútín og Xi út af fyrir sig

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það fór vel á með Starmer og Xi í gær.
Það fór vel á með Starmer og Xi í gær. Getty/Carl Court

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að það væri „afar hættulegt“ fyrir Breta að leitast eftir því að eiga í auknum og nánari samskiptum við Kína. Ummælin lét forsetinn falla eftir að Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, átti þriggja tíma fund með Xi Jinping, forseta Kína, í Pekíng.

Starmer, sem er fyrsti forsætisráðherra Breta til að heimsækja Kína í átta ár, sagðist stefna að því að koma á „fágaðra“ sambandi við Kína. Þá vilja stjórnvöld í Bretlandi styrkja viðskipti við landið. Starmer sagði fundinn með Xi hafa farið vel en hann mun fljúga til Japan síðar í dag og snæða kvöldverð með forsætisráðherranum Sanae Takaichi.

Chris Bryant, viðskiptaráðherra Bretlands, var spurður út í ummæli Trump á BBC Breakfast í morgun. Gaf hann lítið fyrir þau og benti meðal annars á að Trump hefði sjálfur látið fylgja að hann og Xi væru góðir vinir. Þá vissi Bryant ekki betur en að Trump hygðist sækja Kína heim í apríl. Ráðherrann hefur nokkuð til síns máls en Trump hefur sent afar misvísandi skilaboð til umheimsins um afstöðu sína og bandarískra stjórnvalda til bæði Kína og Xi annars vegar og Rússlands og Vladimir Pútín Rússlandsforseta hins vegar. 

Trump hefur farið mikinn um ógnina sem stafar af Kína og Rússlandi, meðal annars í tengslum við ásælni Bandaríkjanna í Grænland. Þá hefur hann ítrekað fordæmt framgöngu Kína á sviði efnahagsmála og haft í hótunum við bandamenn fyrir að kaupa olíu af Rússum. Á sama tíma hefur hann hins vegar ítrekað mært Xi og Pútín og kallað þá vini sína og verið hlandvolgur í yfirlýstum stuðningi sínum við Taívan og Úkraínu. Hann hefur verið fljótur að snúast gegn Vólódimír Selenskí Úkraínuforseta í kjölfar allra samskipta sinna við Pútín og heimilað Nvidia að selja Kínverjum gervigreindar-örflögur, þrátt fyrir harða samkeppni á milli landana á því sviði.

Það er því engu líkara en Trump vilji eiga einkavinina Pútín og Xi út af fyrir sig en þegar hann tjáði sig um samband Bretlands og Kína í gær lét hann einnig fylgja að ef það væri hættulegt fyrir Breta að eiga í nánum samskiptum við Kína, þá væri það enn hættulegra fyrir Kanada. Eins og kunnugt er stal Mark Carney, forsætisráðherra Kanada, sviðsljósinu af Trump á World Economic Forum í Davos á dögunum, þar sem hann tjáði sig um nýja heimsskipan vegna framgöngu Trump, án þess þó að nefna hann á nafn. Carney sagði ríki heims nú meðal annars standa frammi fyrir því að þurfa að mynda tengsl víðar, frekar en að setja öll sín egg í eina körfu, og hefur meðal annars átt í viðræðum við Kínverja.

„Kanada gengur ekki vel,“ sagði Trump í gær. „Þeim vegnar mjög illa og Kína er ekki svarið. Þá bætti hann við: „Xi forseti er vinur minn, ég þekki hann mjög vel.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×