Handbolti

Erfitt fyrir Ís­lendinga að komast að: „Það er bara upp­selt“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jón Halldórsson, formaður HSÍ, segir að HSÍ muni gera allt sem í valdi sambandsins stendur til að fá miða fyrir íslenskt stuðningsfólk, fari Ísland áfram til Danmerkur.
Jón Halldórsson, formaður HSÍ, segir að HSÍ muni gera allt sem í valdi sambandsins stendur til að fá miða fyrir íslenskt stuðningsfólk, fari Ísland áfram til Danmerkur. Samsett/Vísir

Fari svo að Ísland komist í undanúrslit á yfirstandandi Evrópumóti karla í handbolta um helgina verður snúið fyrir stuðningsfólk að fá miða á úrslitahelgina í Herning. Uppselt er á leikina.

Ísland stendur nokkuð vel að vígi fyrir komandi tvo leiki, við Sviss í dag og Slóveníu á morgun, en þarf þó að vinna þá báða til að ganga að sæti í undanúrslitum sem vísu.

Eftir stórsigur á Svíum í Malmö í fyrradag huga margir Íslendingar að því að fara til Danmerkur að sjá úrslitahelgina. Undanúrslit fara fram á föstudag og úrslitaleikur auk bronsleiks á sunnudag.

Þeir hafa þó margir komið að luktum dyrum, þar sem miðar fyrir almenning eru löngu seldir upp. Danir eiga flesta þeirra miða enda á heimavelli og flestum ljóst að þeir myndu taka þátt í úrslitahelginni.

Jón Halldórsson, formaður HSÍ, segir sambandið hafa skoðað miðamálin, þó tveir strembnir leikir séu eftir hjá íslenska liðinu. Allt verði gert til að fjölga miðum, komist Ísland áfram.

„Það er bara uppselt. Það er auðvitað ekki orðið víst að við förum þangað en við erum í virku sambandi að heyra í öllum aðilum varðandi möguleika á miðum,“ segir Jón í samtali við Vísi.

Aðeins 100 miðar á hvert lið

Aðeins 400 miðar séu teknir frá fyrir sambönd þeirra liða sem komast áfram í 14.500 manna höll í Herning.

„Reglurnar eru þannig að 400 miðar eru teknir frá fyrir þau fjögur lið sem fara komast í undanúrslit, 100 á hvert lið. Það er bara staðan. Við munum athuga málið frekar ef Ísland kemst áfram en framhaldið verður bara að koma í ljós,“ segir Jón enn fremur.

Einhverjir vonir standa til um að miðar losni skyldu stuðningsmenn ákveðinna liða hafa keypt slíka í von um undanúrslit. Danir tryggðu sæti sitt í gær og má gera ráð fyrir að langflestir verði danskir í stúkunni um helgina.

Þjóðverjar eru grannþjóð Dana og hafa líklega keypt þónokkra miða sem og Svíar. Þjóðverjar spila úrslitaleik við Frakka um sæti í undanúrslitum á morgun en Svíar eru í svipaðri stöðu og Ísland í milliriðli 2.

Líkt og Jón segir verður ekkert í hendi fyrr en Ísland klárar fyrst leikina tvo við Sviss og Slóveníu.

Leikur Íslands við Sviss hefst klukkan 14:30 í dag og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×