Handbolti

Gísli gagn­rýnir fyrir­komu­lagið á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson á ferðinni í leiknum gegn Svíþjóð sem Ísland vann örugglega, 35-27.
Gísli Þorgeir Kristjánsson á ferðinni í leiknum gegn Svíþjóð sem Ísland vann örugglega, 35-27. vísir/vilhelm

Ekki eru allir sáttir með fyrirkomulagið á Evrópumótinu í handbolta. Þeirra á meðal er Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins.

Liðin í milliriðli I á EM spila alltaf annan hvern dag á meðan liðin í milliriðli II, sem Ísland er í, spila síðustu tvo leiki sína á þriðjudag og miðvikudag. 

Þá þurfa þrjú efstu liðin í milliriðli II að ferðast frá Malmö til Herning á fimmtudaginn. Á föstudaginn verður svo leikið til undanúrslita og um 5. sætið. Álagið á liðin í milliriðli II er því umtalsvert meira en á liðin í milliriðli I.

„Þetta er frekar skrítið fyrir okkur í þessum milliriðli. Þetta er eins fyrir okkur öll en þegar við berum saman er skrítið að við þurfum að spila tvo daga í röð á meðan hinn riðillinn fær frídag. En svona er þetta bara,“ sagði Gísli í samtali við TV 2 í Danmörku er hann var spurður út í fyrirkomulagið á EM. Hann segir að þetta gæti haft áhrif í stóru leikjunum á föstudaginn.

Getum ekki breytt þessu

„Þúsund prósent örugglega. Því liðin úr þessum riðli munu þjást. Leikir tvo daga í röð og svo þarf maður að ferðast til Herning. Ég held að það taki fjóra til fimm tíma og það er eftir leik þar sem maður hefur yfirleitt sofið illa. Svo er bara einn leikur fyrir úrslitaleikinn. En þetta er eins og það er. Ég ætla ekki að kvarta of mikið og við getum ekki breytt þessu.“

Chema Rodríguez, þjálfari Ungverjalands, og Denis Spoljaric, aðstoðarþjálfari Króatíu, taka í sama streng og Gísli. En Tobias Karlsson, liðsstjóri Svíþjóðar, og Arnór Atlason, aðstoðarþjálfari Íslands, velta sér lítið upp úr þessum aðstæðum.

„Það er víst alltaf lið sem heldur mótið sem fær hvíldardag. Þetta er eins og það er. Þetta er ekkert. Við fengum auka dag eftir riðlakeppnina okkar svo það er ekkert í þessu,“ sagði Arnór.

Fyrirkomulagið lá fyrir

Í svari EHF, Handknattleikssambands Evrópu, til TV 2 segir að þátttökuliðin á EM hafi vitað hvernig fyrirkomulagið á mótinu yrði með löngum fyrirvara. 

Í svarinu segir einnig að riðlakeppnin í Malmö hófst síðar en aðrir riðlar, 17. janúar, og liðin sem komu frá Osló og Kristianstad, eins og Ísland, hafi fengið auka dag áður en keppni í milliriðli II hófst.

Ísland mætir Sviss í Malmö klukkan 14:30 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×