Lífið

Eins og gangandi beina­grindur með húðflygsur á sér

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ragga nagli ræddi við Bítið á Bylgjunni um eitraða og skaðlega megrunarmenningu.
Ragga nagli ræddi við Bítið á Bylgjunni um eitraða og skaðlega megrunarmenningu. Facebook

„Það skiptir máli að fræða sérstaklega ungu kynslóðina um að líkamar séu alls konar og það sé ekki eftirsóknarvert útlit að vera svona ofboðslega grannur,“ segir Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, í viðtali við Bítið í gær. 

Viðfangsefnið snerist að vannæringarmenningu sem virðist færast í aukana en næringarfræðingurinn Guðrún Nanna vakti athygli á málinu í pistli fyrir helgi.

Sjá einnig: Vannæring er aftur komin í tísku

Pistill Guðrúnar Nönnu, sem ber heitið Vannæring er komin aftur í tísku, fer meðal annars yfir öfga í þyngdarstjórnunarlyfjum og skaðlega megrunarmenningu sem virðist hafa heltekið samfélagið.

Verri en Kate Moss 1990

Bítið tók púlsinn á Röggu nagla sem er bæði sálfræðingur og einkaþjálfari og leggur mikla áherslu á heilbrigt líferni. Hún segir þetta lífshættulega þróun sem mikilvægt sé að veita forvörn fyrir.

„Mjónutrendið er komið aftur í tísku og við verðum að sýna mótstöðu í verki. Þá sérstaklega konur, rífa í lóðin, taka prótein, verða sterkar og stærri og taka pláss. Þetta er mjög ógnvænleg þróun, sérstaklega þessar myndir sem maður er að sjá frá Hollywood,“ segir Ragga og bætir við að hún hafi varla séð það verra.

„Ég ólst upp í níunni (e. The 90’s) og við munum eftir Kate Moss til dæmis. Fólk hafði miklar áhyggjur af henni en þetta svokallaða heróín neytenda útlit sem einkenndi hana var í tísku. Núna sjáum við konur sem eru áberandi í samfélaginu og eru mun grennri en hún var. 

Þetta eru næstum gangandi beinagrindur með húðflygsur utan á sér. Auðvitað hefur aðgengi að þyngdarstjórnunarlyfjum aukist svakalega og líka slík lyf sem eru ekki uppáskrifuð frá lækni,“ segir Ragga sem geti auðvitað verið lífshættulegt.

„Fólk borðar ekki eins mikið og lendir á endanum í vannæringu, það er ekki að fá nægilega mikið prótein og tefjar og það fer í orkuskort.“

Beinin þynnast, kynhvöt hverfa og blæðingar hætta

Í kjölfarið léttist fólk svakalega en það er ekki bara fita sem það er að missa.

„Mikið af vöðvamassa er að fara, beinþéttni minnkar, vöðvamassi minnkar og fólk verður bara hættilega grannt. 

Þegar konur verða svona ofboðslega grannar fer ýmis hormónastarfsemi í mikla brenglun,“ segir Ragga og nefnir sem dæmi að kynhvöt lækki mikið, streituástand líkamans hækki svakalega og blæðingar hætti.

„Líkaminn hefur bara eitt hlutverk og það er að halda þér á lífi. 

Ef það eru ekki að koma inn hitaeiningar þá hætta blæðingar því líkaminn finnur að þú sért í engu standi til að fjölga mannkyninu. Þannig hann er alltaf að berjast á móti, líkaminn er alltaf miklu gáfaðri en við og þetta er stöðug barátta.“

Sömuleiðis fer daglega ósjálfráða hreyfing okkar niður sem á íslensku myndi kallast fjörbrennsla.

„Sem kemur frá því til dæmis að labba út í búð eða fara út með ruslið, allt þetta minnkar. Líkaminn fer að spara alls staðar þar sem hann getur því það er svo lítið að koma inn.“

Hér má hlusta á Röggu nagla ræða þetta í Bítinu: 

Hraust eða horuð?

Ragga segir langtímaafleiðingarnar sömuleiðis ekki bara líkamlegar heldur líka sálrænar. 

„Það er til rannsókn sem heitir Minnesota Starvation Experiment og var gerð árið 1950 en hún verður aldrei endurtekin. Þá voru hermenn sveltir niður til að sjá hvað gerist þegar við fáum stríðsfanga til baka og gefum þeim aftur að borða.

Þessir hraustu menn voru sveltir niður og mörgum árum síðar á fullorðinsárunum voru þeir enn að fela mat fyrir fjölskyldu sinni til dæmis uppi á háalofti. 

Þeir voru að skoða uppskriftarbækur lon og don og voru með bullandi átröskun alla ævi jafnvel þótt þeir væru komnir aftur í kjörþyngd.“

Hárlos, svefnleysi, brotnar neglur

Ragga ítrekar hve mikilvægt það er að ræða og fræðast.

„Það skiptir máli að fræða sérstaklega ungu kynslóðina um að líkamar séu alls konar og það sé ekki eftirsóknarvert útlit að vera svona ofboðslega grannur. 

Fólk er að glíma við hárlos, svefnleysi, brotnar neglur, það er svo margt sem gerist sem er ekki bara útlitið.“

Hún bætir að lokum við að fullorðna fólkið þurfi líka að vera vart um þetta og bera ábyrgð.

„Við þurfum að hugsa hvað er það sem gerir mig hrausta? Er þetta hreysti eða er þetta bara að vera horaður?“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.