Handbolti

Strákarnir hans Arons unnu risasigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson þekkir það vel að fara með landslið á Asíumótið í handbolta en hann stýrði áður landsliði Barein.
Aron Kristjánsson þekkir það vel að fara með landslið á Asíumótið í handbolta en hann stýrði áður landsliði Barein. Getty/Luka Stanzl

Aron Kristjánsson og lærisveinar hans í kúvæska handboltalandsliðinu byrjuðu vel í milliriðlinum á Asíumótinu í handbolta í dag.

Kúveit vann þrettán marka sigur á Írak, 29-16 en Kúveit var komið átta mörkum yfir í hálfleik, 14-6.

Kúveit vann alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni og hefur því unnið fjóra fyrstu leiki sína á mótinu. Liðið á eftir að mæta Japan og Suður-Kóreu í milliriðlinum en þau gerðu jafntefli í sínum leik í dag. Tvær efstu þjóðirnar komast í undanúrslitin.

Aron hafði áður þjálfað landslið Barein frá 2018 til 2025 en tók við kúveiska landsliðinu í mars í fyrra.

Aron hefur áður þjálfað íslenska landsliðið, danska félagið Aalborg og Hannover í þýsku Bundesligunni auk þess að vinna marga titla með Haukum.

Eitt af stærstu afrekum Arons var að leiða landslið Barein í fjórðungsúrslit á Ólympíuleikunum í Tókýó 2021.

Barein endaði undir hans stjórn í þriðja sæti á síðasta Asíumóti sem fór fram árið 2024 en þá tapaði Kúveit einmitt fyrir Aroni og lærisveinum hans í leiknum um bronsið.

Barein var á heimavelli á síðasta Asíumóti og Aron er á heimavelli á öðru Asíumótinu í röð því mótið fer að þessu sinni fram í Kúveit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×