Innlent

Al­gjör­lega óásættan­leg staða

Eiður Þór Árnason skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segir flokkinn enn standa fyrir sínu.
Guðrún Hafsteinsdóttir er formaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segir flokkinn enn standa fyrir sínu. Vísir/Ívar Fannar

„Það kemur mér auðvitað pínulítið á óvart ef kjósendur vilja frekar kjósa einhvern veginn afsprengi Framsóknarflokksins heldur en Sjálfstæðisflokkinn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður þess síðarnefnda. Miðflokkurinn sé afturhaldssamur þjóðernisflokkur sem sæki innblástur til Bandaríkjanna.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins heldur áfram að dala í nýrri könnun Maskínu á sama tíma og flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sér hag sinn vænkast. Mælist Sjálfstæðisflokkurinn nú fjórða stærsta stjórnmálaafl landsins á eftir Samfylkingunni, Miðflokknum og Viðreisn. 

Nemur fylgisaukning Miðflokksins tíu prósentustigum frá kosningum í nóvember 2024 og mælist hann með 22,2 prósenta stuðning í nýjustu könnun Maskínu. Á sama tíma sögðust 13,5 prósent svarenda styðja Sjálfstæðisflokkinn.

Taki stöðuna alvarlega

„Ef þetta væri niðurstaða í kosningum þá væri þetta auðvitað mikil vonbrigði. Það er rúmt ár síðan við komum út úr kosningum og með líklega verstu niðurstöðu í sögu Sjálfstæðisflokksins. Við vorum þá óánægð og þetta er náttúrlega algjörlega óásættanlegt og við tökum þetta mjög alvarlega,“ sagði Guðrún í kvöldfréttum Sýnar en flokkur hennar hlaut 19,4 prósent atkvæða á landsvísu í síðustu þingkosningum. Hún segir könnunina ákveðna punktstöðu á miðju kjörtímabili.

Guðmundur Hálfdánarson, sérfræðingur í sögu þjóðernisstefnu, ræddi stöðuna í samtali við fréttastofu fyrr í dag og tengdi fylgisþróunina við aukna áherslu Miðflokksins á umræðu um innflytjendamál.

Guðrún telur að Miðflokkurinn sé ekki bara að draga fylgi frá Sjálfstæðisflokknum heldur einnig frá Flokki fólksins og Framsóknarflokknum. Þá telur hún að fleiri þættir geti spilað inn í en stefna flokkanna í málefnum innflytjenda.

„Við sjáum það að margt fólk er einhvern veginn óánægt með stöðu sína. Sú óánægja brýst svolítið fram í því að fólk horfir til liðins tíma, til horfinna tíma, og Miðflokkurinn hefur keyrt á því og því slagorði: „Gamla góða Ísland, bara betra.“ Þetta minnir óneitanlega á slagorð sem hefur verið mikið notað síðustu ár í Bandaríkjunum.“

Leggi áfram áherslu á vestræna samvinnu

„Ég ætla nú bara að minna á það að við Íslendingar höfum notið alveg ótrúlegra framfara undir forystu Sjálfstæðisflokksins í gegnum áratugina og Sjálfstæðisflokkurinn horfir ekki í baksýnisspegilinn, hann horfir til framtíðar. Við ætlum ekki að horfa í baksýnisspegilinn Sjálfstæðismenn en við tökum þetta vitaskuld til okkar vegna þess að við erum ábyrgt stjórnmálaafl,“ bætir Guðrún við.

„Við vitum það að við höfum góða sögu að segja og við höfum einmitt líka góða stefnu. Sjálfstæðisflokkurinn er svona klassískur markaðssinnaður íhaldsflokkur á meðan Miðflokkurinn er afturhaldssamur þjóðernisflokkur. Við höfum alla tíð lagt áherslu á frelsi einstaklingsins, lága skatta, eins lítil ríkisafskipti og lágar álögur og hægt er og öflugt atvinnulíf en einnig líka alþjóðaviðskipti og vestræna samvinnu og það mun Sjálfstæðisflokkurinn leggja höfuðáherslu á hér eftir sem hingað til.“


Tengdar fréttir

Mið­flokkurinn nálgast Sam­fylkingu

Miðflokkurinn mælist með 22,2 prósent í nýrri könnun Maskínu og eykst fylgið um þrjú prósent milli mánaða. Samfylkingin mælist með 27 prósent og því munar einungis tæpum fimm prósentustigum á flokkunum. Viðreisn mælist stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×