Handbolti

Ræða Al­freðs gerði út­slagið: Leik­menn stóðu upp og klöppuðu

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason hefur komið Þýskalandi í úrslitaleik Ólympíuleikanna og ætlar sér langt með liðið á EM í ár.
Alfreð Gíslason hefur komið Þýskalandi í úrslitaleik Ólympíuleikanna og ætlar sér langt með liðið á EM í ár. Getty/Sina Schuldt

Þýski miðillinn Bild grennslaðist fyrir um hvað gengið hefði á hjá þýska handboltalandsliðinu á milli tapsins óvænta gegn Serbum og sigursins frábæra gegn Spánverjum á EM. Niðurstaðan var sú að tilfinningarík ræða Alfreðs Gíslasonar hefði breytt öllu.

Miklar væntingar eru gerðar til þýska liðsins á EM en tapið gegn Serbíu gerði að verkum að liðið hefði getað fallið úr leik strax í riðlakeppninni. Sveinar Alfreðs svöruðu hins vegar fyrir sig gegn Spáni og hefja leik í milliriðli I á morgun með tvö stig í farteskinu, og mæta þar Portúgal á morgun klukkan 14:30.

Bild segir að markvörðurinn Andreas Wolff og fyrirliðinn Johannes Golla hafi fullyrt að ræða Alfreðs í aðdraganda sigursins á Spáni hafi gert gæfumuninn. Hún hafi komið öllum í rétta gírinn.

Miðillinn segir að á fundi sínum hvern leikdag sé Alfreð vanur að sitja með teymi sínu gegnt leikmönnum og ræða við þá. Á mánudaginn hafi hann hins vegar, í fyrsta sinn á EM, staðið á fundinum á meðan að hann flutti ræðu sem sló í gegn.

Þar tók Alfreð skýrt fram að hann bæri ábyrgð á þeim mistökum sem voru gerði í seinni hálfleik gegn Serbíu. Leikmenn ættu þar enga sök og það eina sem þeir ættu að gera væri að horfa fram á veginn.

Þar að auki sagði Alfreð leikmönnum að láta ekki stressið verða of mikið. Það myndi spilla sköpunargleðinni. Á móti liði sem verst af eins mikilli hörku og Spánverjar þá snerist allt um að leikmenn hefðu fjölbreyttar hugmyndir og hugrekki til að framkvæma þær. Íþróttasálfræðin hefði verið upp á tíu hjá íslenska þjálfaranum og skilað leikmönnum pressulausum út í leikinn, tilbúnum að láta ljós sitt skína.

„Svo sannarlega tilfinningarík ræða“

Bild segir að ræðan hafi raunar verið svo góð að í stað þess að leikmenn færu strax í hádegismat eins og vanalega þá hefðu allir staðið upp og klappað. Andrúmsloftið í fundarsalnum á Radisson-hótelinu í Silkeborg hefði verið rafmagnað og skilað sér úti í leikinn.

Alfreð vildi sjálfur sem minnst gera úr sínum hlut í sigrinum, hógværðin uppmáluð þegar hann var spurður út í ræðuna. „Ég höfðaði í rauninni bara til styrkleika þeirra og sagði þeim að trúa á sjálfa sig. Sama hvað gerist, þá eiga þær líka að njóta þess að vera einfaldlega saman á svona móti,“ sagði Alfreð.

Aðstoðarþjálfarinn Erik Wudtke staðfesti hins vegar að orð Alfreðs hefðu hitt algjörlega í mark: „Þetta var svo sannarlega tilfinningarík ræða. Mér fannst hún mjög, mjög skýr. Þetta var tilfinningaríkt. Hann tók á sig sökina. Áhrifin voru frábær. Hann opnaði sig fyrir liðinu, það var stórkostlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×