Innlent

Sverrir Berg­mann hættir í bæjar­stjórn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sverrir mun áfram sinna varaþingmennsku.
Sverrir mun áfram sinna varaþingmennsku. Vísir/Vilhelm

Sverrir Bergmann Magnússon, tónlistarmaður, varaþingmaður og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, hefur ráðið sig í starf samfélags- og sjálfbærnisstjóra hjá Kadeco, þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Þar sem fyrirtækið starfar bæði í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ hefur hann ákveðið að hætta í bæjarstjórn og kveðst ekki bjóða sig fram aftur. 

Hann greinir frá þessu á Facebook. Í starfinu mun hann bera ábyrgð á samfélagstengslum, sjálfbærnistefnu og samþættingu þróunarverkefna Kadeco við nærumhverfi, hagsmunaaðila og íbúa. 

„Þar sem Kadeco starfar á svæði tveggja sveitarfélaga, Suðurnesjabæjar og Reykjanesbæjar, mun ég stíga til hliðar úr sveitarstjórn til að gæta jafnræðis,“ skrifar Sverrir.

Af þeim sökum segist hann ekki ætla að bjóða sig fram í komandi sveitastjórnarkosningum og láta af störfum sem bæjarfulltrúi í febrúar. 

„Þótt þessum kafla sé að ljúka, þá mun ég áfram hafa hag samfélagsins á Suðurnesjum að leiðarljósi. Ég mun halda áfram sem varaþingmaður í Suðurkjördæmi og hlakka til að leggja mitt af mörkum á nýjum vettvangi og í nýju hlutverki.

Ég er innilega þakklátur fyrir lærdómsríkan, krefjandi og skemmtilegan tíma í sveitarstjórn og fyrir allt samstarfið, samtölin og stuðninginn. Ég hlakka til áframhaldandi samskipta á öðrum vettvangi,“ skrifar Sverrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×