Innlent

Deilt um verð­hækkanir Veitna

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Bjarki Sigurðsson skrifa
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, og Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. Samsett

Formaður VR gagnrýnir endurteknar hækkanir á gjaldskrá Veitna og segir að um dulbúna skattahækkun sé að ræða. Framkvæmdastýra Veitna vill ekki meina að um fimmtíu prósenta hækkun sé að ræða.

Í færslu á Facebook gagnrýnir Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, síendurteknar hækkanir á gjaldskrá Veitna og að hægt sé að ráðast í þær án þess að kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna, sem eiga fyrirtækið, komi þar að.

Verðhækkanirnar hlaupa á þúsundköllum.

„Þú verður líka að líta á það að ef þú ert ósáttur við verðið á heita vatninu þínu, þá skrúfaru ekki bara fyrir kranann eða skiptir um krana. Þetta er einokun í eðli sínu. Hiti og rafmagn hafa hækkað langt umfram verðbólgu undanfarið og við sjáum að hækkunin á þessu tvennu hleypur á í kringum 25 þúsund krónum á ári fyrir meðalheimili og fer þar af leiðandi langt með að éta upp tveggja mánaða kjarasamningsbundnar hækkanir,“ segir Halla sem ræddi málin í kvöldfréttum Sýnar í dag.

„Síðan hefur þetta áhrif á verðbólguna og við erum búnar að reikna það út að hún væri 4,25 prósent í staðinn fyrir 4, 5 prósent ef hiti og rafmagn hefði ekki hækkað svona mikið. Þá er þetta farið að hafa áhrif á lánin og húsaleiguna og svo framvegis.“

Halla segir að samið hafi verið um að hið opinbera ætti að halda aftur af gjaldskrárhækkunum og fyrirtæki af verðhækkunum en ekki hafi verið staðið við það. 

„Þannig að við erum með allt of háar verðbólgutölur. Ef þær fylgja okkur í haustið, þá gætu forsendur kjarasamninga brostið.“

Ekki fimmtíu prósenta hækkun

Mbl greindi frá því að um væri að ræða fimmtíu prósenta hækkun á gjaldskrá Veitna. Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, segir að svo sé ekki. Túlkunin byggi á því að einungis sé verið að horfa á einn hluta gjaldskráarinnar sem eru fimmtán prósent af heildarreikningi.

„Mikilvægt er að skilja að hitaveitugjaldið skiptist í tvo meginþætti. Annars vegar notkunargjald og hins vegar fast gjald. Notkunargjaldið endurspeglar raunverulega notkun á heitu vatni og er að meðaltali um 85% af hitaveitureikningi heimila. Fastagjaldið er hins vegar nú um 15% og stendur undir kostnaði við dreifikerfið, tengingar og mælingar – óháð því hversu mikið er notað,“ er haft eftir Sólrúnu í grein á heimasíðu Veitna.

Fastagjaldið hafi farið úr átta prósentum í fimmtán af heildarreikningi og var farið í þá breytingu vegna fjárfestinga sem fyrirtækið standi frammi fyrir við öflun á heitu vatni. Markmiðið með fasta gjaldinu sé að draga úr þeim sveiflum sem heimili finni fyrir í hitaveitureikningnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×