Handbolti

Gleðin snerist í sorg hjá Dan­mörku

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lasse Möller og Magnus Landin þurftu að bera Lukas Jörgensen af velli þar sem hann gat ekki gengið.
Lasse Möller og Magnus Landin þurftu að bera Lukas Jörgensen af velli þar sem hann gat ekki gengið. EPA/Sebastian Elias Uth Send2net DENMARK OUT

Fimmtán marka sigur og sæti í milliriðlum er vanalega tilefni til að gleðjast en frændur okkar frá Danmörku fóru svekktir af velli eftir 39-24 sigurinn gegn Rúmeníu í gærkvöldi.

Línumaðurinn Lukas Jörgensen varð fyrir alvarlegum meiðslum undir lok leiks og var borinn af velli af liðsfélögum sínum. Beðið er eftir niðurstöðum úr myndatöku en búist er við því að hann verði frá í langan tíma, út Evrópumótið hið minnsta.

Meiðslin drógu mikið úr fagnaðarlátum Dana en Lukas Jörgensen er lykilmaður í liðinu.

Hann hefur orðið heimsmeistari tvisvar, skorað meira en tuttugu mörk á síðustu þremur stórmótum og var valinn í úrvalslið mótsins þegar Danir urðu Ólympíumeistarar 2024. Með Flensburg, félagsliðinu í Þýskalandi, hefur Jörgensen unnið Evrópudeildina síðustu tvö tímabil en hann verður liðsfélagi Bjarka Más Elíssonar hjá Veszprém í Ungverjalandi á næsta tímabili.

„Við njótum sigursins, en við syrgjum líka fyrir Lukas. Þetta er mikið og þungt högg fyrir okkur. Við göngum héðan út með súrt bragð í munni því hann þurfti að fara af velli“ sagði liðsfélagi hans í danska landsliðinu, Kevin Möller.

Landsliðsþjálfarinn Nikolaj Jakobsen sagði í morgun að annar leikmaður yrði ekki kallaður inn í staðinn. Hann vilji frekar nýta breiddina í hópnum sem hann valdi en Danir eru með tvö aðra öfluga línumenn, Emil Bergholt og Simon Hald.

Danmörk stefnir á Evrópugullið í ár eftir að hafa unnið silfur og brons á síðustu mótum. Síðasti leikur liðsins í riðlakeppninni verður gegn Portúgal á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×