Innlent

„Dapur­legt að gera á­kvarðanirnar tor­tryggi­legar“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Líf Magneudóttir oddviti VG í Reykjavík segir að ekki hafi verið formlega fallist á að Sanna Magdalena Mörtudóttir hjá Vori til vinstri myndi leiða sameiginlegan lista. Steinunn Rögnvaldsdóttir varaformaður stjórnar VGR segir að það hafi verið forsenda fyrir samstarfi. Dapurlegt sé ef skilningur Lífar sé annar.
Líf Magneudóttir oddviti VG í Reykjavík segir að ekki hafi verið formlega fallist á að Sanna Magdalena Mörtudóttir hjá Vori til vinstri myndi leiða sameiginlegan lista. Steinunn Rögnvaldsdóttir varaformaður stjórnar VGR segir að það hafi verið forsenda fyrir samstarfi. Dapurlegt sé ef skilningur Lífar sé annar. Vísir

Varaformaður stjórnar Vinstri grænna í Reykjavík segir dapurlegt að Líf Magneudóttir núverandi oddviti haldi því fram að ekki hafi verið ákveðið á félagsfundi að Vor til vinstri myndi leiða sameiginlegt framboð. Það hafi verið niðurstaða fundarins í gær. Sanna Magdalena Mörtudóttir segir að það hafi verið sinn skilningur.

VG í Reykjavík tilkynnti í gær að hreyfingin áformi að mynda bandalag með Vori til vinstri í borgarstjórnarkosningunum í vor. Í tilkynningunni kom fram að Sanna Magdalena Mörtudóttir frá Vori til vinstri muni leiða framboðið en fulltrúar VG skipa annað, þriðja og sjötta sæti listans. 

Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna í borginni sagði hins vegar í samtali við Vísi í gær að það hefði ekki verið samþykkt á fundi félagsins að Sanna Magdalena myndi leiða sameiginlegan lista. Vísaði hún til formlegrar tillögu stjórnarinnar þar sem nafn Sönnu kemur ekki fram. Ekki náðist í Líf fyrir hádegisfréttir. 

Skýrt að “Vor til vinstri myndi leiða„

Steinunn Rögnvaldsdóttir varaformaður í stjórn VG í Reykjavík segir hins vegar skýrt að niðurstaðan fundarins hafi verið þessi.

„Á fundi félagsins í gær fórum við yfir stöðuna sem hefur teiknast upp í viðræðum okkar við Vor til vinstri. Það sem við kynntum var að við hefðum náð samkomulagi um að við myndum leggja fram tillögu fyrir fundinn um að bjóða fram sameiginlega og að skipting efstu sæta væri þannig að Vor til vinstri myndi leiða," segir Steinunn. 

Aðspurð um hvort það hafi verið lagt fyrir fundinn að Sanna Magdalena Mörtudóttur myndi leiða listann svarar Steinunn: 

„Það lá fyrir í forsendum fundarins að Vor til vinstri myndi leiða listann. Það er forsendan sem við höfum náð samkomulagi um. Það stendur að Vor til vinstri leiði en það vita allir að Sanna Magdalena er þeirra leiðtogi og mikil sátt um að hún leiði þetta framboð,“ segir Steinunn. 

Enginn ágreiningur á fundinum

Líf Magneudóttir hefur bent á að þetta hafi ekki komið fram í formlegri tillögu á fundinum. Steinunn segir að umræður um málið hafi farið fram þar sem það hafi verið alveg skýrt.

„Fundurinn ræddi um það samkomulag sem náðist við Vor til vinstri um að sá flokkur myndi leiða listann. Um það var enginn ágreiningur á fundinum sem samþykkti tillögu okkar með nánast öllum greiddum atkvæðum. Ég hef heyrt í mörgum félögum eftir fundinn sem eru á einu máli um að fundurinn hafi verið skýr með það að samkomulagið væri að Vor til vinstri myndi leiða sameiginlegan lista. Endilegar listi fyrir framboðið, þ.e. þegar VGR hefur valið sína félaga í forvali á listann, verður svo lagður fyrir félagsfund til samþykktar. Við í VGR erum mjög spennt fyrir samstarfinu,“ segir Steinunn. 

Dapurlegt ef skilningurinn sé annar

Steinunn segir að enginn ágreiningur hafi verið um það á fundinum í gær og dapurlegt ef skilningur Lífar Magneudóttur sé annar.

„Mér finnst það dapurt. Mér finnst það dapurlegt því þetta er rosalega stórt skref fyrir vinstrið að vinna saman. Það á sér framtíð ef það vinnur saman í þágu borgarbúa. Mér finnst dapurt að það sé ekki fókusinn. Það er dapurlegt að gera ákvarðanirnar tortryggilegar,“ segir Steinunn.  

Sanna á sama máli

Sanna Magdalena Mörtudóttir sem fer fyrir lista Vors til vinstri segir það hafa verið skilningur sinn eftir fundinn í VGR og komið fram í tilkynningu frá framboðinu að hún taki fyrsta sætið á sameiginlegum lista.

„Minn skilningur er að VGR hafi fallist á þetta í heild sinni út frá þeirri yfirlýsingu sem kom fram í gærkvöldi á samfélagsmiðlum. Núna þurfum við að vinna úr þeim flækjum sem hafa komið upp svo við séum á sömu blaðsíðu,“ segir Sanna




Fleiri fréttir

Sjá meira


×