Handbolti

Slógu met sem Ís­land er fegið að eiga ekki lengur

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lítil markvarsla og enn minni varnarleikur var í leik Slóveníu og Svartfjallalands í gærkvöldi. 
Lítil markvarsla og enn minni varnarleikur var í leik Slóveníu og Svartfjallalands í gærkvöldi.  EPA/Cornelius Poppe NORWAY OU

Varnarleikur Íslands gegn Hvíta-Rússlandi árið 2016 er ekki lengur versta varnarframmistaða í sögu Evrópumótsins í handbolta. Slóvenía og Svartfjallaland slógu markametið þegar þau skoruðu samtals 81 mark í gærkvöldi.

Slóvenar unnu Svartfellinga 41-40 eftir háspennuleik sem hefði getað farið á hvorn veginn sem er. Slóvenarnir eru að glíma við mikil meiðsli en reynsluboltarnir Blaz Janc og Domen Makuc stigu vel upp og skoruðu samanlagt 17 af 41 marki Slóveníu.

Leikurinn var í raun lygilegur. Bæði lið söknuðu aðalmarkmanna sinna, sem að útskýrir kannski eitthvað, en varnirnar voru samt alveg arfaslakar.

Svartfellingar létu vaða utan af velli og skoruðu að vild, fyrsta markvarslan kom ekki fyrr en eftir rúmar fimmtán mínútur í leiknum, og Slóveninn Blaz Janc klúðraði ekki færi í fyrri hálfleik. Svo einhver dæmi séu nefnd.

Ljóst er að þessi slaki varnarleikur var enn verri en hjá Íslandi og Hvíta-Rússlandi á EM 2016. Samtals 77 mörk voru skoruð í þeim leik, sem lauk með 39-38 sigri Hvíta-Rússlands eftir hræðilegan seinni hálfleik hjá Íslandi.

Strákarnir okkar náðu ekki löglegri stöðvun síðustu sextán mínútur leiksins og íslensku markmennirnir vörðu ekki skot síðustu fimmtán mínúturnar.

Hvíta-Rússland nýtti tólf af fjórtán síðustu sóknum sínum í leiknum. Einu tvær sóknirnir sem fóru forgörðum voru þegar þeir töpuðu boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×