Innlent

Barbara sakar Sig­ríði um ein­elti og Valtý um gagnaleka

Árni Sæberg skrifar
Svo virðist sem starfsandinn hjá Héraðsdómi Reykjavíkur sé ekki eins og best verður á kosið.
Svo virðist sem starfsandinn hjá Héraðsdómi Reykjavíkur sé ekki eins og best verður á kosið. Vísir/Vilhelm

Barbara Björnsdóttir héraðsdómari segir Sigríði Hjaltested, meðdómara hennar við Héraðsdóm Reykjavíkur, hafa lagt hana í einelti í rúma tvo áratugi. Sigríður hafi ritað Dómstólasýslunni bréf þar sem fullyrt er að þau Símon Sigvaldason, þáverandi dómstjóri, hafi átt í ástarsambandi. Valtýr Sigurðsson, eiginmaður Sigríðar og fyrrverandi ríkissaksóknari, hafi lekið bréfinu til verjanda Margrétar Friðriksdóttur, sem sætir ákæru fyrir meiðyrði í garð Barböru.

Aðalmeðferð í máli Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur Margréti Friðriksdóttur, ritstjóra vefsins Frettin.is, fer fram í dag. Margrét er ákærð fyrir ærumeiðingar í garð dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur sem hafði sakfellt hana fyrir hótanir.

Viðsnúningur í Landsrétti

Dagana eftir að Margrét var sakfelld, í febrúar árið 2023, fyrir hótanir í garð baráttukonunnar Semu Erlu Serdaroglu í Héraðsdómi Reykjavíkur birti Margrét færslu á samfélagsmiðlum þar sem hún kallaði Barböru meðal annars „lausláta mellu“.

Hún hélt því jafnframt fram að vitnisburðir í máli hennar hefðu verið falsaðir og um hefði verið að ræða „plott“ til að fá hana sakfellda.

Þess má geta að dómnum á hendur Margréti fyrir hótanirnar var áfrýjað til Landsréttar og þar var hún sýknuð.

Stendur við ummælin

Margrét sagði fyrir dómi í morgun Barböru hafa framið á henni réttarmorð, með því að sakfella hana fyrir hótunarbrot. Hún hafi reiðst vegna þess og því ritað færslu á Facebook, þar sem hún úthúðaði dómaranum. Hún kvaðst hafa opnað orðabók í leit að mildasta orðinu til þess að lýsa Barböru. „Viðbjóðslegur dómur og lauslát mella gefur sinn dóm,“ sagði hún meðal annars.

Áralangt einelti

Barbara bar vitni í dómsal í morgun, eftir að dómari greindi henni frá reglum um réttarhöld en sagði þó að hann teldi að hún þekkti vel til þeirra, að því er segir í frétt Ríkisútvarpsins.

Þar er haft eftir Barböru að Sigríður hafi allt frá árinu 2003 lagt hana í einelti og ekki líkað við þegar hún fengi framgang í starfi. Sigríður hefði dreift sögum um meint ástarsamband þeirra Símonar og ritað Dómstólasýslunni bréf þar sem hún hafi viðrað áhyggjur af sambandinu.

Fjallað var um bréfið í úrskurði Landsréttar sem kveðinn var upp þann 4. september síðastliðinn. Með úrskurðinum var lögmanni Margrétar, Hilmari Garðars Þorsteinssyni, heimilað að leggja bréfið fram sem gagn í málinu.

Valtýr hafi lekið bréfinu

Þá er haft eftir Barböru að eiginmaður Sigríðar, Valtýr Sigurðsson, hafi hótað að gera bréfið opinbert ef hún hætti ekki við kæru sína á hendur Margréti.

Hann hafi þá sett sig í samband við áðurnefndan Hilmar og látið honum bréfið í té. Í úrskurði Landsréttar sagði að ekki væri á valdi dómara að hindra að gögn sem Margrét hygði byggja málatilbúnað sinn yrðu lögð fram í sakamáli nema þau væru bersýnilega þýðingarlaus fyrir málið eða því óviðkomandi.

Í ljósi varna Margrétar hafi verið talið óvarlegt að slá því föstu að bréfið væri bersýnilega tilgangslaust til sönnunar og því fallist á kröfu hennar um að leggja það fram.

Vísir óskaði á sínum tíma eftir því að fá bréfið afhent en Dómstólasýslan hafnaði beiðninni með vísan til ákvæðis upplýsingalaga um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×