Innlent

Rúm­lega tveir af hverjum þremur Mýr­dælingum er­lendir

Kjartan Kjartansson skrifar
Vík í Mýrdal er ein ef ferðaþjónustumiðstöðvum Suðurlands en útlendingar manna stóran hluta ferðaþjónustustarfa. Rúmlega tveir af hverjum þremur íbúum í sveitarfélaginu eru með erlent ríkisfang.
Vík í Mýrdal er ein ef ferðaþjónustumiðstöðvum Suðurlands en útlendingar manna stóran hluta ferðaþjónustustarfa. Rúmlega tveir af hverjum þremur íbúum í sveitarfélaginu eru með erlent ríkisfang. Vísir/Vilhelm

Mýrdalshreppur er með hæst hlutfall erlendra ríkisborgara af öllum sveitarfélögum landsins en 67,4 prósent íbúa þar er með erlent ríkisfang. Hlutfallið er lægst á Skagaströnd þar sem innan við sex prósent íbúa eru erlendir ríkisborgarar.

Sveitarfélög á sunnanverðu landinu þar sem straumur ferðamanna er hvað stríðastur skipa sér í efstu sæti á lista þeirra sem eru með hlutfallslega flesta íbúa með erlent ríkisfang samkvæmt tölum Þjóðskrár. Þær miða við stöðuna 1. desember. Erlendir ríkisborgarar eru yfir fjörutíu prósent af starfsmönnum ferðaþjónustu samkvæmt tölum Samtaka ferðaþjónustunnar.

Á eftir Mýrdalshreppi, þar sem 760 manns eru erlendir ríkisborgarar, kemur Skaftárhreppur þar sem 46,2 prósent íbúa eru erlendir ríkisborgarar. Í Bláskógabyggð er hlutfallið rúmlega 39 prósent.

Yfir þriðjungur íbúa í Rangárþingi eystra, Eyja- og Miklaholtshreppi, Hornafirði, Súðavíkurhreppi, Reykjanesbæ, Ásahreppi og Hrunamannahreppi eru erlendir ríkisborgarar.

Af sveitarfélögunum með hlutfallslega flesta erlenda íbúa er Reykjanesbær er með flesta íbúa með erlent ríkisfang, 8.665 talsins eða 35,2 prósent íbúanna.

Á hinum enda rófsins eru ýmis smærri sveitarfélög. Hlutfallið er lægst á Skagaströnd þar sem 5,8 prósent íbúa eru erlendir ríkisborgarar, alls 27 manns. Hörgársveit, Eyjafjarðarsveit, Kjósarhreppur og Skorradalshreppur eru með á bilinu 6,4 til 8,2 prósent.

Hæsta hlutfallið á Suðurnesjum

Hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúa landsins í heild er rúmlega fimmtungur. Þegar litið er til landshluta er hæst hlutfall erlendra ríkisborgara búsettur á Suðurnesjum þar sem hlutfallið er 29,7 prósent. Á Vestfjörðum er hlutfallið tæpur fjórðungur.

Lægsta hlutfall íbúa með erlent ríkisfang er á Norðurlandi eystra þar sem það er 11,5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×