Innlent

Brotið á stjórn­sýslu­lögum við út­gáfu hvalveiðileyfis

Lovísa Arnardóttir skrifar
Bjarkey Olsen, þingkona VG, var matvælaráðherra á þeim tíma sem leyfið var gefið út.
Bjarkey Olsen, þingkona VG, var matvælaráðherra á þeim tíma sem leyfið var gefið út. Vísir/Einar

Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð matvælaráðuneytisins á umsókn um leyfi til hvalveiða var ekki í samræmi við lög árið 2024. Þá var Bjarkey Olsen matvælaráðherra. Í áliti umboðsmanns segir að stjórnsýslulögum hafi ekki fylgt við meðferð matvælaráðuneytisins á umsókn um leyfi til hvalveiða.

Í samantekt um álitið kemur fram að kvartað hafi verið yfir málsmeðferð matvælaráðuneytisins í kjölfar umsóknar um leyfi til veiða á langreyðum. Í kvörtuninni voru gerðar athugasemdir við það að ráðherra hefði ekki verið heimilt að tímabinda leyfið við eitt ár, 2024.

Í álitinu kemur fram að umboðsmaður hafi bent á að ákvörðun ráðherra um útgáfu leyfis til hvalveiða væri matskennd og ráðherra hefði ákveðið svigrúm til ákvörðunartöku þar að lútandi. Þó yrði meðal annars að gæta að meðalhófi við töku slíkra ákvarðana með hliðsjón af þeim hagsmunum sem væru undirliggjandi.

Umboðsmaður telur því að ákvörðun ráðuneytisins um að tímabinda leyfið eingöngu við árið 2024 hafi ekki verið reist á fullnægjandi heildstæðu mati, auk þess sem ekki hefði verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar.

Í álitinu kemur fram að umboðsmaður hafi í áliti sínu meðal annars litið til þess að sú breyting að takmarka gildistíma leyfisins við árið 2024 yrði að teljast íþyngjandi fyrir fyrirtækið að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem félagið hefði sem atvinnurekandi og fyrri framkvæmdar við útgáfu sambærilegra leyfa til félagsins.

Í niðurstöðu sinni segir umboðsmaður að það sé álit hennar að ákvörðun matvælaráðuneytisins um að tímabinda leyfið til hvalveiða eingöngu árið 2024 hafi ekki verið reist á fullnægjandi mati eða samrýmst kröfum um meðalhóf. Umboðsmaður segir einnig að það sé álit hennar að matvælaráðuneytið hafi ekki gætt nægilega að því að haga gagnaöflun sinni og umsagnarferli þannig að það samrýmdist stjórnsýslulögum.

Engar hvalveiðar voru árið 2025. Vísir/Egill

„Þar sem það liggur fyrir að í byrjun desember 2024 veitti matvælaráðuneytið X hf. leyfi til veiða á langreyðum til fimm ára tel ég ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til atvinnuvegaráðuneytisins vegna málsins. Ég beini þó þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu,“ segir í niðurstöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×