Erlent

Vara Evrópu­ríkin við því að taka á móti em­bættis­mönnum frá Taí­van

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kínverjar eru síður en svo ánægðir með samskipti Evrópuríkjanna við Taívan.
Kínverjar eru síður en svo ánægðir með samskipti Evrópuríkjanna við Taívan. Getty/Johannes Neudecker

Kínversk stjórnvöld hafa beitt Evrópuríki þrýstingi og krafist þess að þau hleypi ekki embættismönnum frá Taívan inn í lönd sín. Þetta hefur Guardian eftir fjölda heimildarmanna, sem segja Kína hafa varað ríkin við því að „traðka ekki á rauðum línum Kína“.

Kínverjar eru sagðir hafa beitt ýmsum leiðum til að koma viðvörunum sínum á framfæri; annað hvort í skriflegum skilaboðum eða munnlega og ýmist í gegnum sendiráð ríkja í Pekíng eða eigin sendiráð í Evrópu.

Samskiptin áttu sér stað í nóvember og desember og virðast hafa verið viðbrögð við ferðum taívanskra embættismanna til Evrópu, meðal annars varaforseta landsins og utanríkisráðherra.

Kínverjar ku hafa vísað til laga og reglna Evrópusambandsins og Schengen, meðal annars ákvæðis sem segir að það megi ekki hleypa einstaklingum inn sem eru taldir ógna alþjóðlegum samskiptum aðildarríkis. Túlkun Kínaverja mun vera sú að með því að hleypa embættismönnum frá Taívan inn í Evrópuríki, sé viðkomandi ríki að ógna samskiptum sínum við Kína.

Samkvæmt heimildum Guardian eru Evrópuríkin hvött til þess að hleypa ekki taívönskum embættismönnum inn fyrir landamæri sín, til að varðveita samband sitt við Kína. Vísað er til heimsókna Taívana til Belgíu, Póllands, Þýskalands, Danmerkur og Írlands, svo eitthvað sé nefnt.

Stjórnvöld í Noregi og Finnland hafa staðfest að þau séu meðal þeirra ríkja sem fengu umrædd skilaboð frá Kínverjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×