Erlent

Rekstrar­aðilar grunaðir um mann­dráp af gá­leysi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Fimm daga þjóðarsorg stendur yfir í Sviss. 
Fimm daga þjóðarsorg stendur yfir í Sviss.  AP

Saksóknari í Sviss hefur tilkynnt að sakamálarannsókn á hendur rekstrarstjórum skemmtistaðarins Le Constellation, þar sem fjörutíu ungmenni létust í eldsvoða á gamlárskvöld, sé hafin.

Í tilkynningu frá saksóknarembættinu í Valais segir að rekstrarstjórarnir, sem eru franskir ríkisborgarar, séu grunaðir um manndráp af gáleysi, líkamsmeiðingar af gáleysi og íkveikju af gáleysi.

Talið er að eldurinn hafi kviknað í lofti staðarins út frá gosblysi sem starfsmenn gengu með til þeirra sem höfðu keypt flöskur af áfengi.

Viðbragðsaðilar eru enn skammt komnir með að bera kennsl á lík hinna látnu. Aðstandendur yfir þrjátíu ungmenna sem enn er saknað lýsa martraðarkenndri bið í samtali við erlenda miðla. 

Fyrr í dag voru samkvæmt frétt BBC borin kennsl á lík tveggja svissneskra kvenna og tveggja svissneskra pilta. Þau voru sextán, átján og 21 árs.

Le Constellation-skemmtistaðurinn er staðsettur við skíðasvæðið Crans-Montana í suðurhluta Sviss. Staðurinn var vinsæll meðal ungmenna en talið er að hin látnu sé fólk á aldursbilinu 16-25 ára. 

Guy Parmelin forseti Sviss segir atburðinn einn mesta harmleik í sögu þjóðarinnar. Fimm daga þjóðarsorg stendur yfir í landinu. 


Tengdar fréttir

Sprenging eftir að gestir opnuðu út

Fjörutíu manns létu lífið í eldsvoða á skemmtistað í Sviss á nýársnótt. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá gosblysi. Talið er að svokölluð yfirtendrun skýri hversu hratt eldurinn breiddi úr sér.

Vinna með yfir­völdum í níu löndum að bera kennsl á látna

Svisslendingar vinna nú með yfirvöldum í níu löndum að því að bera kennsl á þá sem fórust í eldsvoðanum að skemmtistaðnum Le Constellation í Crans-Montana á nýársnótt. Upptök eldsins eru rakin til notkunar blysa í kjallara staðarins. Vitað er að fjörutíu manns týndu lífi í eldsvoðanum og 119 manns eru enn á sjúkrahúsi.

Fjölskyldur lýsa martraðarkenndri bið

Fjölskyldur ungmenna sem grunað er að hafi látið lífið í eldsvoða í skíðabæ í Sviss á gamlárskvöld bíða enn fregna frá yfirvöldum um nöfn hinna fjörutíu sem létust. Stjórnvöld í Sviss segja daga ef ekki vikur þar til upplýsingar um öll fórnarlömb liggja fyrir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×