Skoðun

Krónan er ein­mitt ekki vanda­málið

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fróðlegt viðtal birtist á Dv.is á dögunum þar sem rætt var við Gylfa Magnússon, prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, um peningamálin. Viðtalið var þó ekki fróðlegt vegna þess að eitthvað nýtt hafi komið fram í því heldur vegna þess að Gylfi, sem lengi hefur talað fyrir því að gengið yrði í Evrópusambandið og tekin upp evra, sagði það. Hann viðurkenndi nefnilega í því að krónan væri ekki vandamálið í þeim efnum og ekki orsök hárra vaxta heldur hagstjórnin.

„En ef við skoðum bara gjaldmiðilinn, þá hefur það óneitanlega töluverða kosti að vera með stóran og stöðugan gjaldmiðil. En það hefur líka stundum kosti að vera með lítinn og sveigjanlegan gjaldmiðil. Og ástæða þess að vextir eru eitthvað hærri hér og hafa sögulega verið heldur en í nágrannalöndunum eða Bandaríkjunum, er kannski ekki það endilega að við erum með sjálfstæðan gjaldmiðil, heldur það að við höfum ekki haldið neitt sérstaklega vel á spilunum.“

Til þessa hafa Evrópusambandssinnar viljað meina að vandamálið væri beinlínis það að Ísland væri með sjálfstæðan gjaldmiðil sem í ofan á lag væri smár. Háir vextir væru af þeim sökum óhjákvæmilegur fylgifiskur hennar. Hins vegar hafa hagfræðingar eins og Ólafur Margeirsson fært gild rök fyrir því að það standist ekki skoðun. Þá ætti það að sama skapi að eiga við um aðra smáa sjálfstæða gjaldmiðla. Sú væri hins vegar alls ekki raunin. Þar á milli væri mjög lítil fylgni.

„Það er svona auðvitað hægt að finna einhverjar skýringar, en það má kannski segja að skýringin hafi svona almennt bara verið agaleysi í íslenzkri hagstjórn, bæði í ríkisfjármálum og peningamálum, og líka í ákvörðunum um kaup og kjör á vinnumarkaði,“ sagði Gylfi sömuleiðis um ástæður vaxta og verðbólgu hér á landi. Hins vegar yrði það ekki lagað með upptöku annars gjaldmiðils. Eftir sem áður yrði að koma á meiri aga í peninga- og efnahagsmálunum hér á landi.

„Það er síðan annað mál hvort við, með því að taka upp annan gjaldmiðil, gætum leyst þessi vandamál, vegna þess að ein hættan við að taka upp nýjan gjaldmiðil, sem krefst mikils aga, er að ef við værum áfram með það agaleysi sem hefur einkennt íslenzka hagstjórn […] þá yrði ansi erfitt að vera með gjaldmiðil sem að krefst mikils aga,“ sagði Gylfi áfram. Með öðrum orðum væri meiri agi forsenda þess að taka upp evruna en tækist að koma honum á væri vandinn leystur.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×