Viðskipti innlent

Hefja sölu á fyrstu hlið­stæðu við Simponi í heiminum

Atli Ísleifsson skrifar
Höfuðstöðvar Alvotech í Vatnsmýrinni.
Höfuðstöðvar Alvotech í Vatnsmýrinni. Vísir/Vilhelm

Alvotech hefur hafið markaðssetningu á Gobivaz, hliðstæðu Alvotech við Simponi (golimumab), í Evrópu en um er að ræða fyrstu hliðstæðu við Simponi sem komi á markað í heiminum. Advanz Pharma fer með einkarétt á sölu Gobivaz í Evrópu.

Frá þessu segir í tilkyningu Alvotech til Kauphallar. Þar segir að Heilbrigðisþjónusta Englands (National Health Service England) hafi samið um að kaupa hliðstæðuna í stað frumlyfsins, eftir opinbert útboð þar sem Advanz Pharma hafi átt besta tilboðið. 

Þessi ákvörðun er byggð á stefnu NHS um að auka aðgengi sjúklinga með langvinna bólgusjúkdóma að hágæða líftæknilyfjum. Markaðssetning á meginlandi Evrópu og skráning Gobivaz í verðskrár heilbrigðistrygginga á Evrópska efnhagssvæðinu er einnig hafin,“ segir í tilkynningu. 

Haft er eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og forstjóra Alvotech, að félagið fagni því að meðferð sjúklinga með Gobivaz sé hafin og að fyrsta hliðstæðan við Simponi sem hlotið hefur hafi markaðsleyfi sé komin á markað. 

„Þessi hliðstæða við Simponi er mikilvæg viðbót fyrir sjúklinga og meðferðaraðila. Niðurstaðan í útboði NHS England sýnir vel hversu mikilvægt er fyrir heilbrigðisstofnanir og greiðendur lyfja að auka framboð af hágæða líftæknilyfjum,“ segir Róbert.

„Markaðsleyfi Gobivaz var byggt á alhliða gögnum úr forklínískum og klínískum rannsóknum, sem sýndu að lyfið væri hliðstæða við frumlyfið Simponi. Gobivaz er framleitt í lyfjaverksmiðju Alvotech í Reykjavík og er í boði í öllum sömu lyfjaformum og frumlyfið.

Um Alvotech

Alvotech er líftæknifyrirtæki stofnað af Róberti Wessman sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þróunar- og framleiðsluþættir í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu og krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu, Rómönsku Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×