Körfubolti

Jokic tók NBA-met af Abdul-Jabbar í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Nikola Jokic hefur nú gefið fleiri stoðendingar en allir miðherjarnir í sögu NBA.
 Nikola Jokic hefur nú gefið fleiri stoðendingar en allir miðherjarnir í sögu NBA. Getty/AAron Ontiveroz

Nikola Jokic bætti við enn einni tvöföldu þrennunni í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en hann gerði meira en það.

Jokic skoraði 23 stig, gaf 13 stoðsendingar og tók 11 fráköst þegar Denver Nuggets vann Orlando Magic 126-115.

Þetta var þrettánda þrenna Jokic á leiktíðinni.

Jokic hjá Nuggets sló um leið met Kareem Abdul-Jabbar í stoðsendingum frá miðherjum. Jokic kom inn í leikinn sex stoðsendingum á eftir Kareem Abdul-Jabbar, sem gaf 5660 stoðsendingar á ferlinum. 

Jokic fór fram úr honum þegar 6:26 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik þegar hann setti upp þriggja stiga körfu hjá Jalen Pickett.

Abdul-Jabbar gaf þessar 5660 stoðsendingar í 1560 leikjum sem gerir 3,6 stoðsendingar í leik.

Jokic er aftur á móti búinn að gefa 5667 stoðsendingar í aðeins 771 leik sem gera 7,3 stoðsendingar í leik. Hann er líka með þrennu að meðaltali í leik í vetur, hefur skorað 29,8 stig, tekið 12,4 fráköst og gefið 10,8 stoðsendingar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×