Körfubolti

New York Knicks vann titil í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn New York Knicks fagna með bikarinn í Las Vegas í nótt. Karl-Anthony Towns lyftir bikarnum og er mjög ánægður með lífið.
Leikmenn New York Knicks fagna með bikarinn í Las Vegas í nótt. Karl-Anthony Towns lyftir bikarnum og er mjög ánægður með lífið. Getty/Ethan Miller

New York Knicks vann í nótt sinn fyrsta titil síðan 1973 þegar liðið tryggði sér sigur í NBA-bikarnum.

Knicks vann 124-113 sigur á San Antonio Spurs í úrslitaleiknum.

Nú geta Knicks-menn því hengt upp borða við hliðina á borðanum fyrir NBA-meistaratitilinn 1973 í Madison Square Garden, en þá vann liðið sjálfan NBA-meistaratitilinn síðast.

OG Anunoby skoraði 28 stig fyrir New York-liðið og Jalen Brunson var með 25 stig og 8 stoðsendingar. Brunson var valinn verðmætasti leikmaður keppninnar. Karl-Anthony Towns var með 16 stig og 11 fráköst þrátt fyrir að glíma við kálfameiðsli.

Dylan Harper var stigahæstur hjá Spurs með 21 stig, Wembanyama skoraði 18 og De'Aaron Fox 16.

New York réð ríkjum undir körfunni, tók 59 fráköst gegn 42 hjá Spurs, þar sem Mitchell Robinson tók 15 fráköst, þar af 10 í sókn. Það hjálpaði Knicks að ná 56-44 forskoti í stigum skoruðum í teignum.

Knicks fékk meira en bara bikar því hver leikmaður með hefðbundinn samning fékk 318.560 dollara aukalega fyrir sigurinn, sem gerir heildarupphæðina 530.933 dollara fyrir það eitt að komast í úrslitaleikinn. Það eru um 67 milljónir íslenskra króna.

Aðeins það að komast í úrslitaleikinn er góðs viti fyrir bæði lið. Fyrri fjögur liðin sem komust í úrslit NBA-bikarsins, Los Angeles Lakers, Indiana Pacers, Oklahoma City Thunder og Milwaukee Bucks, komust einnig í úrslitakeppnina. Pacers komst í úrslit Austurdeildarinnar 2024 og Thunder vann NBA-meistaratitilinn á síðasta tímabili.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×