Körfubolti

Yngstur í sögu NBA til að skora fjöru­tíu stig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Miklar væntingar eru gerðar til Coopers Flagg.
Miklar væntingar eru gerðar til Coopers Flagg. getty/Alex Goodlett

Cooper Flagg, nýliði Dallas Mavericks, skráði sig á spjöld sögunnar í nótt. Hann varð þá yngsti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar til að skora fjörutíu stig í leik.

Flagg skoraði 42 stig þegar Dallas laut í lægra haldi fyrir Utah Jazz eftir framlengingu, 140-133, í nótt.

Flagg, sem verður nítján ára á sunnudaginn, er yngsti leikmaður í sögu NBA sem skorar svo mörg stig í leik. Gamla metið átti LeBron James en hann skoraði 37 stig, þá enn átján ára, í desember 2003.

„Augljóslega unnum við ekki svo það er erfitt fyrir mig að vera ánægður en þetta er áfangi,“ sagði Flagg eftir leikinn í Salt Lake City í nótt.

Auk þess að skora 42 stig gegn Utah tók Flagg sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar í leiknum. Hann er þriðji táningurinn í sögu NBA sem skorar að minnsta kosti fjörutíu stig, tekur að minnsta kosti fimm fráköst og gefur að minnsta kosti fimm stoðsendingar í leik. Hinir eru LeBron og Kevin Durant.

Dallas valdi Flagg með fyrsta valrétti í nýliðavalinu í sumar. Hann er með 17,5 stig, 6,3 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik á tímabilinu.

Dallas er í 12. sæti Vesturdeildarinnar með tíu sigra og sautján töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×