Erlent

Heyrði byssuhvellina: Skotvopnalöggjöfin rædd á kaffi­stofunni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jakob Máni heyrði byssuhvellina þegar árásin hófst.
Jakob Máni heyrði byssuhvellina þegar árásin hófst. Aðsend

„Maður finnur, á samfélagsmiðlum og bara í kring, að fólk er bara í molum,“ segir Jakob Máni Ásgeirsson, sem var staddur skammt frá Bondi-ströndinni þegar skotárásin átti sér stað í gær.

Að minnsta kosti sextán létust og 42 voru fluttir á sjúkrahús.

Jakob Máni, sem kom til Ástralíu í október til að starfa á golfvelli í sex mánuði, heyrði byssuhvellina þegar árásin hófst.

„Maður fór að hugsa hvað væri í gangi en síðan sér maður tilkynningu um að það sé maður sem gangi berserksgang með byssu.

Þetta er nú bara svolítið erfitt því maður er ekkert vanur þessu,“ svarar Jakob, spurður að því hvernig honum hafi orðið við. „Það er erfitt að útskýra það.“

Að sögn Jakobs gengur umræðan úti að einhverju leyti út á gagnrýni á ríkisstjórn Anthony Albanese, fyrir að hafa ekki gert meira til að sporna við gyðingahatri en þegar árásin átti sér stað var verið að halda upp á hanukkah, ljósahátíð gyðinga.

„Á kaffistofunni í vinnunni í morgun var skoðunin nú bara sú að það ætti ekki neinn að vera með byssu,“ segir Jakob spurður að því hvort hann telji að byssulöggjöfin í landinu verði hert í kjölfar árásarinnar, líkt og þegar hefur komið til umræðu.

Annar árásarmaðurinn var með skotvopnaleyfi og átti sex lögleg vopn, þar af fjögur sem fundust á vettvangi í gær.

Jakob segir andrúmsloftið á kaffistofunni hafa verið þungt og menn hafi almennt átt erfitt með að tala um harmleikinn. „Maður er náttúrulega bara meyr.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×