Handbolti

Danir úr leik á HM

Aron Guðmundsson skrifar
Úr leik Frakklands og Danmerkur í kvöld
Úr leik Frakklands og Danmerkur í kvöld Vísir/Getty

Frakkland er síðasta liðið inn í undanúrslit heimsmeistaramóts kvenna í handbolta. Þetta varð ljóst eftir fimm marka sigur liðsins, 31-26, á danska landsliðinu í kvöld.

Þær frönsku voru alltaf einu skrefi á undan þeim dönsku í leik liðanna í átta liða úrslitum í dag og voru fimm mörkum yfir í hálfleik 17-12.

Danska landsliðinu tókst ekki að finna svörin við leik Frakkana og tókst um leið ekki að brúa bilið sem hafði myndast milli liðanna í fyrri hálfleik.

Mest náði franska landsliðið sjö marka forskoti á einum tímapunkti í seinni hálfleik og fór svo á endanum að þær fóru með fimm marka sigur af hólmi, 31-26.

Frakkland fer því áfram í undanúrslit og mætir þar Þýskalandi. Danmörk er úr leik. 

Sara Bouktit var markahæst í liði Frakklands í dag með átta mörk á meðan að stórleikur Kristinu Jörgensen, sem skoraði ellefu mörk fyrir Danmörku, dugði ekki til. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×